- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Nicolai, Sigurður, Arnar, Ólafur, Eggert, Þorgils, Andrea, Donni, Grétar

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, ræðir við sína menn. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -
  • Norski markvörðurinn Nicolai Horntvedt Kristensen sem samdi við KA í sumar hefur ekki enn fengið samþykkt félagaskipti. Sótt var um félagaskipti fyrir hann og Eistlendinginn Ott Varik á sama tíma. Skipti þess síðarnefnda gengu fljótlega í gegn en eftir situr Norðmaðurinn. Vonir standa til þess að hann verði orðinn KA-maður þegar KA sækir HK heim í 3. umferð Olísdeildar á föstudaginn. 
  • Sigurður Finnbogi Sæmundsson sem valinn var mikilvægasti leikmaður ungmennaliðs Gróttu í vor hefur söðlað um og skipt til félagsliðs á Kýpur. Sigurður Finnbogi þekkir vel til í handknattleik á Kýpur því hann lék með Anorthosis tímabilið 2021/2022  samhliða meistaranámi í líffræði við University of Cyprus.
  • Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk fyrir Amo HK þegar liðið vann HK Karlskrona, 31:28, í Karlskrona í slag nýliðanna í upphafsleik sænsku úrvalsdeildarinnar í karlaflokki í gærkvöld. Leikurinn fór fram í Karlskrona að viðstöddum 2.699 áhorfendum en keppnishúsið rúmar 2.850. 
  • Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði fjögur mörk fyrir HK Karlskrona og Dagur Sverrir Kristjánsson eitt. Þorgils Jón Svölu Baldursson var ekki í leikmannahópi liðsins. Phil Döhler er markvörður HK Karlskrona en upplýsingar um hvernig honum vegnaði í leiknum lágu ekki fyrir seint í gærkvöld. 
  • Andrea Jacobsen og samherjar hennar í Silkeborg-Voel unnu Horsens í mikilli markaveislu á heimavelli í gær í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 41:39. Andrea átti tvö markskot en í hvorugt skiptið vildi boltinn í netið. Henni var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Silkeborg-Voel hefur fjögur stig eftir þrjá fyrstu leikina. 
  • Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði sjö mörk og var markahæstur hjá PAUC þegar liðið tapaði fyrir Dunkerque, 33:32, í annarri umferð frönsku 1. deildarinnar í gær. Leikið var í Dunkerque. Donni og félagar voru með yfirhöndina lengst af síðari hálfleiks en heimamenn stungu sér framúr á endasprettinum. 
  • Grétar Ari Guðjónsson, markvörður, átti annan stórleik í röð með Sélestat í 2. deild franska handknattleiksins í gær. Hann varði 15 skot, 47%, í öðrum sigri liðsins í deildinni. Að þessu sinni voru það leikmenn Bes­ancon sem sátu eftir með sárt ennið, lokatölur 42:26. Grétar Ari lét sér ekki nægja verja eins og berserkur heldur skoraði hann einnig tvö mörk.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -