- Oddur Gretarsson skoraði tvö mörk, annað frá vítalínunni þegar lið hans Balingen-Weilstetten tapaði fyrir Lemgo á heimavelli með fjögurra marka mun, 30:26, í 1. deild þýska handknattleiksins í gærkvöld. Daníel Þór Ingason skoraði ekki mark fyrir Balingen-Weilstetten að þessu sinni. Balingen Weilstetten rekur lestina í deildinni með fimm stig að loknum 12 leikjum og virðist liðið enn einu sinni eiga erfitt með að fóta sig í efstu deild en það hefur farið á milli fyrstu og annarrar deildar á undanförnum árum.
- Hákon Daði Styrmisson skoraði fjögur mörk, þar af tvö úr vítaköstum í þriggja marka tapi Eintracht Hagen, 31:28, í heimsókn til Potsdam í 2. deild þýska handknattleiksins í gærkvöld. Hagen er í 11. sæti með 10 stig eftir 11 umferðir.
- Stöðuna í 1. og 2. deild þýska handknattleiksins ásamt fleiri stöðutöflum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Handknattleikdeild ÍH virðist ætla að tjalda öllu sem til er þegar ÍH mætir Haukum í sextán liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla á laugardaginn í Kaplakrika. Tilkynnt var í gær að Arnar Daði Arnarsson og Theodór Ingi Pálmason hafi gengið til liðs við þjálfarateymi ÍH vegna leiksins. Arnar og Theodór hafa marga fjöruna sopið utan vallar sem innan um árabil.
- Danska landsliðskonan Emma Friis hefur ákveðið að kveðja Ikast í heimalandi sínu næsta sumar og ganga til liðs við rúmenska meistaraliðið CSM Búkarest. Hún staðfesti við danska fjölmiðla í gær að hafa skrifað undir tveggja ára samning við CSM.
- Emma Olsson fyrrverandi leikmaður handknattleiksliðs Fram hefur leikið með Borussia Dortmund í Þýskalandi síðan hún kvaddi Fram sumarið 2022. Á sunnudaginn lék Olsson með liðinu gegn H.C. Dunarea Braila frá Rúmeníu í síðari umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Olsson og samherjar máttu sætta sig við tap á heimavelli, 25:24. H.C. Dunarea Braila vann Íslandsmeistara Vals í fyrstu umferð undankeppninnar fyrir hálfum mánuði. Síðari leikurinn fer fram í Braila á sunnudaginn. Olsson skoraði ekki mark í leiknum fyrir Dortmund.
- Auglýsing -