- Auglýsing -
- Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk og Daníel Þór Ingason eitt í þriggja marka sigri liðs þeirra, Balingen-Weilstetten, á N-Lübbecke, 26:23, á útivelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Balingen-Weilstetten er áfram efst í deildinni með 23 stig eftir 12 leiki. Eisenach er í öðru sæti fjórum stigum á eftir Balingen.
- HC Motor tapaði fyrir Eintracht Hagen, 34:31, í þýsku 2. deildinni í gær. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari HC Motor sem er í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.
- Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði tvö mörk fyrir Alpla Hard þegar liðið tapaði naumlega á heimavelli fyrir HC Fivers, 28:27, á heimavelli í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard sem er efst í deildinni með 17 stig eftir 10 leiki en þetta var fyrsta tap liðsins í deildinni á leiktíðinni.
- Ásgeir Snær Vignisson var ekki á meðal markaskorara Helsingborg í gær þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Guif, 32:29. Helsingborg er í 12. og þriðja neðsta sæti deildarinnar með sjö stig að loknum 11 leikjum. Guif stökk upp í áttunda sæti með sigrinum.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, var fjarri vegna meiðsla þegar PAUC tapaði fyrir Dunkerque á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld, 28:25. Donni er meiddur á ökkla eins og kom fram á handbolta.is fyrr í vikunni. PAUC er fallið niður í níunda sæti eftir skrykkjótt gengi í síðustu leikjum.
- Grétar Ari Guðjónsson, markvörður, kom lítið við sögu þegar lið hans Sélestat tapaði fyrir Chambéry, 31:24, á heimavelli í gærkvöld. Sélestat er neðst og án stiga í frönsku 1. deildinni að loknum 10 leikjum.
- Spænski handknattleiksþjálfarinn Ambros Martín hefur ákveðið að segja skilið við ungverska meistaraliðið Győri Audi ETO í lok leiktíðar í vor eftir tveggja ára starf að þessu sinni. Óvíst er hvað tekur við hjá Martín en víst að kappinn verður ekki á flæðiskeri í atvinnuleit sinni.
- Auglýsing -