- Auglýsing -
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 13 mörk, þar af sjö úr vítaköstum, í sjö marka sigri Kadetten Schaffhausen, 31:24, á Pfadi Winterthur í svissnesku A-deildinni í gær. Tvö skot geiguðu hjá Óðni Þór í leiknum. Kadetten, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar þriðja árið í röð, er í öðru sæti deildarinnar með 36 stig eftir 23 leiki. HC Kriens er efst með 41 stig.
- Bjarki Már Elísson lét sér nægja að skora þrjú mörk fyrir Veszprém þegar liðið vann. FTC með 10 marka mun, 40:30, í ungversku 1. deildinni í gær. Leikurinn fór fram í Búdapest. Veszprém er í efsta sæti deildarinnar með 32 stig eftir 16 leiki.
- Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen unnu Göppingen á útivelli í gærkvöld í þýsku 1. deildinni í handknattleik og eru þar með jafnir Füchse Berlin í efsta sæti deildarinnar. Berlínarliðið á leik til góða. Ýmir Örn lét til sín taka í vörninni og var m.a. tvisvar vísað af leikvelli.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti annan framúrskarandi leikinn í röð í marki Ringkøbing Håndbold í gær þegar hún varði 15 skot, 35%, í átta marka sigri á Skanderborg Håndbold, 38:30, á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni. Steinunn Hansdóttir skoraði eitt mark fyrir Skanderborg sem er næst neðst í deildinni. Sigurinn færði Ringkøbing upp í 10. sætið.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk og gaf fjórar stoðsendingar í gær þegar lið hans Coburg gerði jafntefli við Potsdam, 28:28, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Leikmenn Potsdam skoruðu tvö síðustu mörk leiksins. Coburg er í 12. sæti af 20 liðum deildarinnar með 21 stig eftir 23 leiki.
- Berta Rut Harðardóttir skoraði þrjú mörk í góðum sigri Holstebro á Gudme HK, 33:26, á heimavelli í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. Holstebro er í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig eftir 18 leiki, fjórum stigum á eftir EH Aalborg sem er í efsta sæti.
- Jakob Lárusson og liðsmenn hans í Kyndli töpuðu fyrir H71 í úrslitum færeysku bikarkeppninnar í handknattleik kvenna í gær með fjögurra marka mun, 31:27. Leikið var í Höllinni á Hálsi. H71, sem lang sterkasta liðið í færeysku kvennahandknattleik um þessar mundir var með fimm marka forskot í hálfleik, 17:12.
- Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia Håndboldklub unnu Mors-Thy, 36:25, í 21. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Einar Þorsteinn Ólafsson koma lítillega við sögu Fredericia Håndboldklub sem er í 7. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 21 leik, er fjórum stigum á undan TTH Holstebro og Ribe-Esbjerg. Síðast nefnda liðið fær meistaraliði GOG í heimsókn í dag.
- Daníel Freyr Andrésson varði fjögur skot, 29%, þann tíma sem hann stóð í marki Lemvig í fimm marka tapi fyrir Skanderborg Aarhus, 34:29, í Skanderborg. Lemvig er í 12. sæti af 14 liðum úrvalsdeildarinnar í Danmörku með 12 stig.
- Auglýsing -