- Auglýsing -
- Óðinn Þór Ríkharðsson fór á kostum og skoraði níu mörk í tíu skotum í tíu marka sigri Kadetten Schaffhausen, 32:22, í þriðja sigri liðsins á HSC Suhr Aarau í undanúrslitum úrslitakeppni svissnesku A-deildarinnar í handknattleik í gær. Kadetten er þar með komið í úrslit. Ekki liggur fyrir hvort BSV Bern eða HC Kriens-Luzern verður andstæðingur Kadetten í úrslitaleikjunum um meistaratitilinn.
- Tumi Steinn Rúnarsson var markahæstur hjá Alpla Hard ásamt Ante Tokic með sex mörk þegar liðið vann Bregenz í fyrstu viðureign grannliðanna í Bregenz í átta liða úrslitum austurrísku 1.deildarinnar í gær. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard. Næsti leikur liðanna verður á miðvikudagskvöld.
- Alpla Hard varð deildarmeistari í Austurríki með nokkrum yfirburðum fyrir nokkrum vikum. Bregenz hafnaði á hinn bóginn í sjöunda sæti.
- Janus Daði Smárason skoraði eitt mark í öruggum sigri Pick Szeged á Gyöngyös, 35:27, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Pick Szeged er áfram í öðru sæti deildarinnar sex stigum á eftir deildarmeisturum One Veszprém.
- Viktor Gísli Hallgrímsson var ekki í leikmannahópi Wisla Plock í gær þegar liðið vann Energa MKS Kalisz, 41:25, í annarri og síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum pólsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær.
- Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk úr vítaköstum þegar Bjerringbro/Silkeborg tapaði fyrir GOG, 31:30, í úrslitakeppni efstu liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Leikið var í Svendborg á Fjóni. Bjerringbro/Silkeborg hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og rekur lestina í riðli eitt í úrslitakeppni átta efstu liðanna. Þeim er skipt í tvo fjögurra liða riðla.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -