- Auglýsing -

Molakaffi: Ólafur Andrés, Aðalsteinn, Jóhanna Margrét, Pera, Vasile

Ólafur Andrés Guðmundsson á EM í fyrra. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði fimm mörk fyrir GC Amicitia Zürich þegar liðið vann öruggan sigur á HSC Kreuzlingen, 33:24, í fyrstu umferð svissnesku úrvalsdeildarinnar í handknattleik á heimavelli í gær. Ólafur kom mikið við sögu í leiknum og lét einnig til sín taka í vörninni með þeim afleiðingum að hann varð að víkja tvisvar af leikvelli, í tvær mínútur í hvort skiptið. 

  • Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í meistaraliðinu Kadetten Schaffhausen lentu í kröppum dans í heimsókn til St. Gallen. Eftir hörkuleik þá vann Kadetten með eins marks mun, 33:32. Óðinn Þór Ríkharðsson, sem gekk til liðs við Kadetten í sumar, tók ekki þátt í leiknum en rúm vika er liðin síðan hann gekkst undir aðgerð vegna ristarbrots. 
  • Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði eitt mark fyrir Önnereds þegar liðið tapaði fyrir GF Kroppskultur, 27:26, á heimavelli í gær í þriðju og síðustu umferð áttunda riðils 32-liða úrslita sænsku bikarkeppninnar í handknattleik. Þrátt fyrir tapið eiga Jóhanna og samherjar sæti í 16-liða úrslitum víst. Eftir að lið hafa verið dregin saman í 16-liða úrslitum mætast þau tvisvar og ráða samanlögð úrslit hvort þeirra heldur áfram í átta liða úrslit. Sextán liða úrslit hefjast innan fárra daga. 

  • Rúmenska handknattleikssambandið réði á dögunum Florin Pera í starf landsliðsþjálfara kvenna í stað Adrian Vasile. Pera þjálfaði hjá CSKA Moskvu á síðasta keppnistímabili eftir að hafa áður þjálfað Valcea í Rúmeníu og m.a. stýrt liðinu til sigurs í deildinni vorið 2019. Rúmenar  verða með á EM sem hefst í byrjun nóvember. Vasile, sem er einnig þjálfari CSM Búkarest, hafði ekki verið þjálfari landsliðsins nema í hálft annað ár.


- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -