- Auglýsing -
- Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Elverum standa vel að vígi eftir að hafa unnið Nærbø, 23:22, á útivelli í öðrum leik liðanna í undanúrslitum í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla í gærkvöld. Simon Mizera, markvörður Elverum, kom í veg fyrir framlengingu þegar hann varði skot á síðustu stundu leiksins. Orri Freyr skoraði eitt mark. Þriðja viðureign liðanna fer fram í Elverum á sunnudaginn. Elverum þarf einn sigur í viðbót til þess að komast í úrslitaeinvígið.
- Daníel Freyr Andrésson varði þrjú skot í marki Lemvig, 20%, þann tíma sem hann stóð í marki liðsins í tapi fyrir Norsjælland, 30:28, í síðustu umferð í keppni neðstu liða dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Leikurinn fór fram á Sjálandi. Lemvig rekur lestina í keppni fimm liða í neðri hlutanum og mætir Team Sydhavsøerne úr næst efstu deild um þátttökurétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
- TTH Holstebro, sem Halldór Jóhann Sigfússon stýrir út keppnistímabilið, tapaði á útivelli fyrir SønderjyskE, 35:33, í lokaumferð liðanna í neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld.
- Storhamar vann Sola, 28:27, á útivelli í öðrum leik liðanna undanúrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna í gærkvöld. Leikurinn fór fram á heimavelli Sola. Staðan er þar með jöfn í rimmu liðanna, 1:1 í vinningum talið. Þriðji leikurinn verður á heimavelli Storhamar á föstudaginn eftir rúma viku. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar.
- Íslendingaliðið Volda tapaði í gær á heimavelli fyrir Oppsal, 28:21, í umspilsleik liðanna um sæti í norsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði eitt mark fyrir Volda. Katrín Tinna Jensdóttir skoraði ekki enda lék hún mest í vörn Volda. Rakel Sara Elvarsdóttir var ekki í leikmannahópi liðsins. Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda út keppnistímabilið. Honum til aðstoðar er Hilmar Guðlaugsson.
- Síðari leikur Volda og Oppsal verður í Oppsal Arena á sunnudaginn.
- Auglýsing -