- Auglýsing -
- Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá Sporting með átta mörk þegar liðið vann ABC de Braga, 43:28, á heimavelli í 13. umferð portúgölsku 1. deildarinnar í gær. Sporting hefur unnið alla leiki sína í deildinni til þessa.
- Stiven Tobar Valencia skoraði þrisvar fyrir Benfica þegar liðið tapaði stigi í heimsókn til FC Gaia á laugardaginn, 30:30. Benfica er í þriðja sæti deildarinnar.
- Jóhannes Berg Andrason skoraði fimm mörk í níu skotum þegar lærisveinar Arnórs Atlasonar í TTH Holstebro töpuðu á heimavelli í gær fyrir GOG í 15. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar. GOG færðist upp í 2. sæti deildarinnar með 20 stig með þessum sigri. Liðið er 10 stigum á eftir Aalborg Håndbold sem hefur yfirburði í deildinni.
- TTH Holstebro situr í 5. sæti með 17 stig eftir 15 leiki, er stigi á eftir Skanderborg sem Kristján Örn Kristjánsson, Donni, leikur með.
- Jón Ísak Halldórsson skoraði tvö mörk fyrir Lemvig í gær þegar liðið vann TM Tønder Håndbold, 30:29, í Tønder Hallerne í næstefstu deild danska handknattleiksins í gær. Lemvig er í 7. sæti með 15 stig eftir 14 leiki, átta stigum á eftir liði Skive sem trónir á toppnum.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fimm mörk í 10 skotum í níu marka tapi Amo HK fyrir IFK Kristianstad, 38:29, í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Leikið var í Kristianstad. Einar Bragi Aðalsteinsson var ekki í leikmannahópi Kristianstad að þessu sinni. Kristianstad er í þriðja sæti deildarinnar en Amo situr í 11. sæti af 14 liðum.
- Liðsmenn Elíasar Más Halldórssonar í Ryger Stavanger unnu Viking TIF, 35:32, á heimavelli í gær í næstefstu deild norska handknattleiksins. Þetta var þriðji sigur Ryger í 11 leikjum deildarinnar. Liðið er í 12. sæti af 14 með sex stig.
- Auglýsing -



