- Auglýsing -
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur mörk fyrir Sporting þegar liðið vann Benfica í Lissabon-slag í fyrstu umferð portúgölsku 1. deildarinnar í handknattleik í gær, 32:26. Um var að ræða heimaleik Sporting. Martim Costa skoraði 15 mörk fyrir Sporting. Francisco bróðir Martim var næstur með átta mörk. Þeir bræður leika lausum hala undir stjórn föðurs þeirra sem þjálfar Sporting-liðið.
- Stiven Tobar Valencia skoraði ekki mark fyrir Benfica í leiknum. Hann átti eitt skot sem missti marks. Stiven gekk til liðs við Benfica í sumar á eins árs samningi. Orri Freyr flutti einnig til Lissabon í sumar og samdi við Sporting til tveggja ára. Stiven og Orri eru fyrstu Íslendingarnir til þess að leika í efstu deild karla í Portúgal.
- Róbert Sigurðarson fagnaði sigri í fyrsta leik sínum með norska úrvalsdeildarliðinu Drammen í gær. Drammen lagði Halden, 29:21, á heimavelli Halden. Róbert skoraði ekki mark og virtist vera rólegur í tíðinni. Hinn hálf íslenski, Viktor Petersen Norberg, skoraði þrjú mörk fyrir Drammen.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði átta mörk úr níu skotum þegar Kadetten Schaffhausen náði aðeins jafntefli á heimavelli gegn GC Zürich í fyrstu umferð svissnesku A-deildarinnar í handknattleik í gær, 26:26. Óðinn Þór varð markahæsti leikmaður meistaranna sem misstu leikinn niður í jafntefli undir lokin. Þrjú marka sinna skoraði Óðin Þór úr vítaköstum. Kadetten var þremur mörkum yfir, 23:20, þegar átta mínútur voru til leiksloka.
- Ásgeir Snær Vignisson skoraði ekki mark en var einu sinni vikið af leikvelli þegar liðs hans, Fjellhammer, tapaði fyrir Elverum á útivelli í gær, 35:28, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Ásgeir Snær átti tvö markskot sem rötuðu ekki í netið.
- Axel Stefánsson var kátur eftir að eftir að lið hans, Storhamar, vann Oppsal, 34:23, í úrvalsdeild kvenna í Noregi í gær. Axel er annar þjálfara Storhamar sem hefur örugglega unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson átti náðugan dag þegar lið hans, Kolstad, vann grannlið sitt, Rapp, í norsku bikarkeppninni í Husebyhallen, 42:16. Sigvaldi Björn virtist lítið hafa komið við sögu í leiknum eins og fleiri af öflugri leikmönnum Kolstad.
- Alfreð Gíslason fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og Íþróttamaður ársins 1989 og núverandi landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik er 64 ára gamall í dag. Handbolti.is sendir Alfreð hamingjuóskir með daginn.
- Auglýsing -