- Auglýsing -
- Orri Freyr Þorkelsson og liðsfélagar í Sporting Lissabon unnu annan leik sinn í úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna í portúgölsku 1. deildinni í gær. Þeir lögðu Marítimo Madeira Andebol SAD, 35:24, á heimavelli. Orri Freyr skoraði tvö mörk, annað úr vítakasti. Salvador Salvador fór á kostum í liði Sporting og skoraði 11 mörk.
- Benfica og FC Porto mætast í annarri umferð úrslitakeppninnar í dag í Lissabon.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk og gaf fjórar stoðsendingar í öruggum sigri Alpla Hard á Ferlach, 33:26, í næst síðustu umferð austurrísku 1. deildarinnar í handknattleik í gær. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard sem er með yfirburðastöðu í deildinni og hefur fyrir nokkru tryggt sér deildarmeistaratitilinn.
- Viktor Gísli Hallgrímsson var ekki í leikmannahópi Wisla Plock í gær þegar liðið vann Piotrkow, 42:22, í 26. og síðustu umferð pólsku úrvalsdeildarinnar í gær. Wisla hafnaði í öðru sæti með jafn mörg stig og Industria Kielce. Síðarnefnda liðið vann deildarmeistaratitilinn á hagstæðari úrslitum í innbyrðis úrslitum í leikjum í gegn Wisla Plock.
- Viktor Gísli og félagar mæta Energa MKS Kalisz í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um pólska meistaratitilinn.
- Eins og handbolti.is sagði frá á dögunum varð Storhamar norskur meistari í handknattleik kvenna. Leikmenn liðsins tóku við sigurlaunum sínum á heimavelli í gær eftir sigur á Follo, 44:33, í síðustu umferð úrvalsdeildarinnar. Axel Stefánsson er einn þjálfara Storhamar.
- Fredrikstad Bkl, sem Elías Már Halldórsson þjálfar, hafnaði í 9. sæti og náði ekki sæti úrslitakeppninni. Fredrikstad tapaði fyrir Sola á heimavelli í gær, 40:35. Sola varð í öðru sæti deildarinnar.
- Oppsal náði áttunda og síðasta sætinu í úrslitakeppninni með sex marka sigri á Romerike Ravens, 32:26.
- Auglýsing -