- Auglýsing -
- Óskar Ólafsson skoraði tvö mörk og Viktor Petersen Norberg þrjú þegar Drammen treysti stöðu sína í öðru sæti í norsku úrvalsdeildinni í gær með 12 marka sigri á útivelli á Tønsberg Nøtterøy, 36:24. Leikmenn Drammen eru á leiðinni til Sviss þar sem þeir mæta Suhr Aarau öðru sinni í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar um helgina. Drammenliðið vann fyrri leikinn með tveggja marka mun, 31:29.
- Elías Már Halldórsson og lærimeyjar hans í Fredrikstad Bkl. fóru upp í sjöunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar í gær með frábærum sigri á Molde á heimavelli, 26:22. Sigurinn jók á möguleika Fredrikstad Bkl á að komast í úrslitakeppni átta efstu liða deildarinnar. Fredrikstad Bkl á tvo leiki eftir í deildinni.
- Storhamar, sem Axel Stefánsson þjálfar, vann Aker Topphåndball, 30:25, á útivelli og heldur örugglega öðru sæti úrvalsdeildar kvenna.
- Birta Rún Grétarsdóttir var ekki í liði Oppsal sem tapaði á heimavelli fyrir Fana, 32:24. Oppsal-liðsins virðist ekki bíða annað en fall úr úrvalsdeildinni í vor.
- Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard, var í leikmannahópi liðsins annan leikinn í röð í gær þegar Hard vann Handball Tirol, 29:28, á heimavelli. Nokkrir leikmenn Hard eru fjarverandi vegna veikinda og þess vegna varð Hannes Jón, sem er 42 ára gamall og í flottu formi, að bregða á það ráð að taka þátt í nokkrum leikjum. Hard er efst í deildinni með 33 stig eftir 20 leiki og er tveimur stigum á undan Krems og Aon Fivers.
- Hulda Bryndís Tryggvadóttir var ekki í leikmannhópi KA/Þórs í gærkvöld í sigurleik á ÍBV, 34:24, í Olísdeild kvenna. Ekki kom fram í lýsingu KAtv frá leiknum hvernig á fjarveru hennar stóð.
- Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV meiddist á ökkla, í viðureign KA/Þórs og ÍBV í KA-heimilinu í gær.
- Sigtryggur Daði Rúnarsson, leikmaður ÍBV, meiddist þegar átta mínútur voru til leiksloka í viðureign FH og ÍBV í Olísdeild karla í Kaplakrika í gær. Hann var studdur af velli. Svo virtist sem Sigtryggur dytti í bleytu á gólfinu og hlaut slæma byltu.
- Auglýsing -