- Auglýsing -
- Juan Carlos Pastor hefur framlengt samning sinn við nýkrýnda Ungverjalandsmeistara Pick Szeged til ársins 2023. Hann kom til félagsins árið 2013. Undir stjórn Pastors varð Pick Szeged einnig ungverskur meistari 2018 og bikarmeistari ári síðar.
- Sigurður Ingiberg Ólafsson markvörður Kríu er samningsbundinn ÍR í eitt ár til viðbótar en hann lék með Kríu á síðustu leiktíð á lánssamningi. Eftir því sem handbolti.is kemst næst er lánssamningurinn á milli ÍR og Kríu útrunninn.
- Magnús Öder Einarsson leikmaður Selfoss er á leið í axlaraðgerð og verður frá keppni fram að áramótum, eftir því sem handbolti.is hefur hlerað.
- Dagur Gautason, hornamaður Stjörnunnar, var á dögunum undir smásjá þýska 1. deildarliðsins Ludwigshafen. Ekkert varð af samningum eftir því sem næst verður komist.
- Brynjar Darri Baldursson markvörður Stjörnunnar lék sinn síðasta leik, alltént í bili, í gærkvöldi gegn Haukum í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik. Hann ætlar að leggja handboltaskóna á hilluna eftir því sem næst verður komist og einbeita sér að námi í arkitektúr.
- Danska handknattleikskonan Anne Cecilie de la Cour hefur ákveðið að leggja keppnisskóna á hilluna aðeins 27 ára gömul. Hún varð bæði danskur meistari og bikarmeistari með Odense Håndbold á leiktíðinni. De la Cour á 33 landsleiki að baki og tvö stórmót, EM 2016 og 2018. Hún stefnir á að hefja lögreglunám með haustinu.
- Auglýsing -