- Hinn gamalreyndi handknattleiksþjálfari Velimir Petkovic er sterklega orðaður við þjálfarastarfið hjá króatísku meisturunum í karlaflokki, RK Zagreb, eftir að forráðamenn félagsins losuðu sig við 12. þjálfarann á 10 árum. Þar með er ekki öll sagan sögð í þeim efnum vegna þess að einn þeirra hefur komið og farið þrisvar á þessum 10 árum og annar komið og farið tvisvar.
- Petkovic sem er Bosníumaður með þýskt ríkisfang var síðast landsliðsþjálfari Rússa í handknattleik karla en sagði starfi sínu lausu í sumar eftir nærri fjögur ár. Hann var ráðinn til Rússlands snemma árs 2020 þegar Alfreð Gíslason afþakkaði starfið og tók við þýska landsliðinu.
- Þótt Petkovic, sem er 68 ára gamall, sé orðaður við RK Zagreb segir hann í samtali við þýska fjölmiðla að hann langi til að enda þjálfaraferilinn í Þýskalandi.
- Þýska 1. deildarliðið Stuttgart sagði þjálfaranum Michael Schweikardt upp störfum á laugardaginn eftir afleita frammistöðu liðsins í deildinni fram til þessa. Stuttgart er í næst neðsta sæti deildarinnar með tvö stig eftir 10 leiki. Ekki liggur fyrir hver tekur við þjálfuninni. Leit stendur yfir. Schweikardt hafði þjálfað Stuttgart-liðið í rúm tvö ár. Bróðir Michael, Jürgen, er framkvæmdastjóri Stuttgart. Sagt er frá því af þýskum fjölmiðlum hann hafi þurft að segja bróður sínum upp störfum.
- Franski landsliðsmaðurinn og vinstri hornamaðurinn Hugo Descat hefur skrifað undir nýjan samning við ungverska meistaraliðið Veszprém. Samningurinn gildir til ársins 2027, Descat kom til félagsins sumarið 2023.
- Línumaðurinn öflugi, Ludovic Fabregas, hefur tekið við fyrirliðastöðunni í franska karlalandsliðinu af Luka Karabatic. Frakkar urðu Evrópumeistarar fyrr á þessu ári en heltust úr lestinni í átta liða úrslitum í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna á heimavelli í ágúst.
- Auglýsing -