- Auglýsing -
- Spánverjinn Xavier Sabate lætur af störfum landsliðsliðsþjálfara Tékklands í handknattleik karla að loknum heimsmeistaramótinu. Frá þessu var greint í gær. Sabate ætlar að einbeita sér að þjálfun pólsku meistaranna Wisla Plock sem þrátt fyrir gott gengi í pólsku úrvalsdeildinni hafa ekki staðið undir væntingum í Meistaradeild Evrópu í vetur.
- Sabate tók við þjálfun tékkneska landsliðsins fyrir þremur árum. Síðan hefur hann hresst talsvert upp á liðið eftir tölvuvert uppstand í tengslum við heimsmeistaramótið Egyptalandi 2021 þegar landsliðið dró sig út í mótinu á elleftu stundu eftir agaleysi og veikindi. Gekk málið svo langt að upplausn varð í stjórn tékkneska handknattleikssambandsins sem lauk með hallarbyltingu. Michal Bruna og Daniel Kubeš taka við þjálfun tékkneska landsliðsins af Sabate.
- Annar markvörður þýska kvennalandsliðsins á Evrópumótinu í síðasta mánuði, Katharina Filter, hefur samið við danska meistaraliðið Esbjerg til tveggja ára frá og með næsta keppnistímabili. Hún verður þar með liðsfélagi Önnu Kristensen markvarðar danska landsliðsins sem sló í gegn á EM. Filter er nú markvörður Brest Bretagne í Frakklandi. Filter kemur í stað Amalie Milling gengur til liðs við Ikast.
- Forráðamenn rúmenska handknattleiksfélagsins SCM Gloria Buzau lögðu árar í bát í gær. Þeir drógu öll lið sín úr keppni, hvor heldur sem var karla- eða kvennalið. Ástæðan er tekjuskortur.
- Kvennalið SCM Gloria Buzau hefur verið meðal betri liða í Rúmenu og haft öfluga leikmenn sem nú eru án atvinnu. Má þar m.a. nefna rúmensku landsliðskonurnar Daria Bucur og Stefania Jipa, ungversku konurnar Tamara Pal og Nikoletta Papp og Tea Pijevic sem verið hefur markvörður króatíska kvennalandsliðsins.
- Kerstin Kündig fyrirliði landsliðsins Sviss sem vakti athygli á EM í síðasta mánuði með góðri frammstöðu kveður þýska liðið Thüringer HC í sumar og flytur heim til Sviss. Kündig hefur samið við GC Amicitia Zurich.
- Auglýsing -