- Auglýsing -
- Keppni hefst á nýjan leik í þýsku 1. deildinni í handknattleik kvenna í kvöld en vegna heimsmeistaramóts kvenna hefur ekki verið leikið í deildinni síðan 18. nóvember. Íslensku landsliðskonurnar Díana Dögg Magnúsdóttir og Sandra Erlingsdóttir verða í eldlínunni með liðum sínum á útivelli.
- Sandra og samherjar í TuS Metzingen sækja Blomberg-Lippe heim. Díana Dögg og liðsmenn BSV Sachsen Zwickau leika við SV Union Halle-Neustadt í SWH.arena í Halle Neustadt. Næsta umferð deildarinnar verður 30. desember.
- Johanna Bundsen markvörður sænska landsliðsins hefur samið við þýska meistaraliðið Bietigheim frá og með næsta sumri. Bundsen leikur um þessar mundir með IK Sävehof, efsta liði sænsku úrvalsdeildarinnar.
- Þýski markvörðurinn Henning Fritz hefur tekið fram keppnisskóna og ákveðið að leika með ítalska liðinu SSV Bozen. Fritz er 49 ára gamall og lék með fremstu liðum Þýskalands á sinni tíð og var auk þess í sigurliði Þjóðverja á HM 2007. Áratugur er síðan Fritz hætti og sneri sér að þjálfun markvarða. Hann hljóp þó í skarðið hjá Flensburg árið 2021.
- Rune Dahmke sem leikið hefur með THW Kiel frá 2012 hefur framlengt samning sinn við félagið til ársins 2026. Dahmke er í þýska landsliðshópnum sem hefur hafið undirbúning fyrir Evrópumeistaramótið á heimavelli í næsta mánuði. Dahmke er unnusti norsku landsliðskonunnar Stine Oftedal sem leikur með Györ í Ungverjalandi. Þau hafa verið par í fjarbúð árum saman.
- Jaron Siewert þjálfari Füchse Berlin hefur framlengt samning sinn við félagið til ársins 2026. Siewert tók við þjálfun liðsins 2020 og gert það gott. Berlínarliðið hefur verið í toppbaráttu deildarinnar undanfarin ár og er nú í efsta sæti jafnt Magdeburg að stigum. Auk þess vann Füchse Berlin Evrópudeildina í vor og lék til úrslita í heimsmeistarakeppni félagsliða í nóvember.
- Stefan Kretzschmar íþróttastjóri Füchse Berlin hefur einnig framlengt samning sinn við félagið til ársins 2026. Hann hefur getið sér gott orð í starfinu.
- Auglýsing -