- Auglýsing -
- Sandra Erlingsdóttir lék á ný með TuS Metzingen í gærkvöldi þegar liðið sótti meistara Bietigheim heim í Sporthalle am Viadukt í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Bietigheim vann öruggan sigur, 33:26, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 17:15. Sandra skoraði ekki mark að þessu sinni. Bietigheim er efst í deildinni með 30 stig eftir 15 leiki. Metzingen er í fjórða sæti með 18 stig, er stigi fyrir ofan Blomberg-Lippe en sjö stigum á eftir Dortmund sem er í þriðja sæti.
- Holstebro náði aðeins öðru stiginu úr viðureign við Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld, 27:27. Stigið nægði til þess að lyfta Holstebro upp í áttunda sæti deildarinnar í bili en viðureignin var sú fyrsta í 21. umferð. Halldór Jóhann Sigfússon er annar þjálfara Holstebroliðsins sem er í hörkukeppni um að komast í úrslitakeppni átta efstu liða um danska meistaratitilinn.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn eftirlæti áhorfenda í þýska handknattleiknum þegar veittar voru viðurkenningar fyrir eitt og annað í þýskum handknattleik á síðasta ári. Handball-world stóð fyrir valinu annað árið í röð. Magdeburg, liðið sem Gísli Þorgeir leikur með, var valið lið ársins enda þýskur meistari á árinu í fyrsta sinn í liðlega 20 ár. Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, var kjörinn þjálfari ársins. Liðlega 200 þúsund tóku þátt í kosningu í ýmsum flokkum sem tengdust kjörinu.
- Rússneski handknattleiksmaðurinn Timur Dibirov hefur skrifað undir nýjan samning við króatísku meistarana RK Zagreb sem gildir til ársins 2025. Dibirov sem stendur á fertugu, gekk til liðs við félagið á síðasta ári eftir áratug í herbúðum Vardar í Skopje. Hann er einn fjögurra leikmanna sem hefur skorað meira en 1.000 mörk í Meistaradeild Evrópu í handknattleik.
- Danski handknattleiksþjálfarinn Kim Rasmussen sem sagt var upp störfum eftir skamma dvöl í starfi þjálfara kvennalandsliðs Suður Kóreu er talinn sennilegur sem næsti þjálfari rúmenska liðsins Rapid Búkarest. Aðalmaðurinn hjá félaginu, Bogdan Vasiliu, er sagði óánægður með núverandi þjálfara liðsins þótt hann hafi skilað nýliðunum í 16-liða úrslit Meistaradeildar kvenna og sé í þriðja sæti í rúmensku 1. deildinni. Vill hann ólmur losa sig við Spánverjann Carlos Viver og ráða Rasmussen. Vasiliu var fyrir nokkrum árum helsti stjórnandi CSM Búkarest og réði Danann þá til félagsins með þeim árangri að CSM vann Meistaradeildina.
- Auglýsing -