- Auglýsing -
- Sandra Erlingsdóttir lék ekki með TuS Metzingen í fyrsta leik liðsins af þremur á æfingamóti í Ungverjalandi i gær. TuS Metzingen tapaði fyrir japanska landsliðinu, 32:30. Sandra á afmæli í dag og sendir handbolti.is henni hér með hamingjuóskir með afmælið.
- Ólafur Brim Stefánsson leikur ekki með Fram á næstu leiktíð í Olísdeildinni. Arnar Daði Arnarsson handknattleiksþjálfari og sérfræðingur, sagði frá því í gær að Ólafur Brim hafi rift samningi sínum við Fram. Jafnframt heldur Arnar Daði því fram að Ólafur Brim eigi í viðræðum við Gróttu. Hann lék undir stjórn Arnars Daða hjá Gróttu frá 2020 til 2022.
Samkvæmt heimildum Sérfræðingsins er Ólafur Brim Stefánsson enn án félags eftir að hafa rift samningi sínum við Fram og beðið um launahækkun. Framarar stóðu fast á sínu. Það gæti farið svo að hann endi á Nesinu aftur en ÓB virðist vera í samningsviðræðum við Gróttu. #Handkastið pic.twitter.com/oGHTddHSIH
— Arnar Daði (@arnardadi) July 26, 2023
- Forráðamenn þýsku meistaranna, THW Kiel, leita þessa dagana logandi ljósi að örvhentri skyttu. Hinn margreyndi Steffen Weinhold er meiddur í öxl og U19 ára landsliðsmaðurinn Henri Pabst meiddist alvarlega á ökkla í vináttuleik við íslenska landsliðið á dögunum. Báðir verða frá keppni um nokkuð langt skeið. Norðmaðurinn Harald Reinkind er eina örvhenta skytta liðsins sem stendur sem nægir ekki.
- Króatinn Lovro Jotić var í gær leystur undan samningi við DHfK Leipzig. Hann samdi rakleitt við RK Nexe í heimalandi sínu. Jotić er sjötti leikmaðurinn sem Nexe krækir í á síðustu vikum. Ljóst má vera að liðið ætlar sér ekki aðeins að standa sig í stykkinu í Evrópudeildinni á leiktíðinni heldur á að freista þess að vinna meistaratitilinn í Króatíu sem RK Zagreb hefur unnið 30 ár í röð.
- Serbneska meistaraliðið RK Vojvodina frá Novi Sad samdi í gær við línumanninn Marouan Chouiref sem leikið hefur með Tremblay í Frakklandi síðustu árin. RK Vojvodina vann Evrópubikarkeppnina í vor og ætlar sér ekki að vera með upp á punt í Evrópudeildinni á komandi leiktíð, ef að líkum lætur.
- Auglýsing -