- Auglýsing -
- Sandra Erlingsdóttir skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar í gærkvöld þegar lið hennar, TuS Metzingen, tapaði á heimavelli fyrir Borussia Dortmund, 33:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. TuS Metzingen situr sjötta sæti deildarinnar með 24 stig þegar fimm umferðir eru eftir óleiknar. Dortmund er í þriðja sæti með 31 stig, 11 stigum á eftir toppliði Bietigheim sem hefur ekki tapað stigi í deildinni til þessa.
- Steinunn Hansdóttir skoraði ekki mark fyrir Skanderborg Håndbold þegar liðið tapaði naumlega, 32:31, fyrir SønderjyskE í umspili neðstu liða dönsku úrvalsdeildarinnar á útivelli í gær. Skanderborg Håndbold er í næst neðsta sæti keppninnar þegar einn leikur er eftir. Neðsta liðið, sem nú um stundir er Ajax, mun mæta annað hvort EH Aalborg eða Holstebro úr 1. deildinni í þriggja leikja keppni um sæti úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
- Forsvarsmenn handknattleiksdeildar KA slá ekk slöku við með pennann þessa dagana. Í gær var sagt frá því að Kristján Gunnþórsson hafi skrifað undir nýjan samning við félagið.
- Dansk/þýski handknattleiksmaðurinn Aaron Mensing yfirgefur Flensburg í sumar og gengur til liðs við danska meistaraliðið GOG. Samningur Mensing við GOG er til eins árs. Mensing hefur leikið vel með Flensburg í vetur.
- Mensing er ekki eini leikmaður Flensburg sem rær á ný mið í sumar. Franz Samper hefur samið við SC DHfK Leipzig og verður það með í leikmannahópnum hjá Rúnari Sigtryggssyni á næstu leiktíð. Samper er örvhentur og hefur leikið með þýska landsliðinu í síðustu ár. Hann sleit krossband síðla árs 2020 og hljóp Alexander Petersson í skarðið fyrir hann síðari hluta tímabilsins 2020/2021.
- Þýska handknattleiksliðið BSV Sachsen Zwickau, sem Díana Dögg Magnúsdóttir leikur með og er fyrirliði hjá, hefur samið við Caroline Martins markvörð. Martins er brasilísk kemur til félagsins í sumar eftir tveggja ára veru hjá Fredrikstad í Noregi hvar hún hefur verið undir handleiðslu Elíasar Más Halldórssonar. Markvarslan hefur verið Akkilesarhæll liðs BSV Sachsen Zwickau á leiktíðinni. Standa vonir til að koma Martins bæti verulega úr skák.
- Robert Andersson, fyrrverandi landsliðsmaður Svía í handknattleik sem margir muna e.t.v. eftir, hættir þjálfun þýska 3. deildarliðsins TuS Ferndorf í lok leiktíðar. Eftir tvo tapleiki í umspili um sæti í 2. deild eru möguleikar TuS Ferndorf á að endurheimta sæti í deildinni orðnir nær litlir. Andersson tók við þjálfun liðsins sumarið 2020. Eftir því sem næst verður komist hyggst Andersson flytja heim til Ystad.
- Auglýsing -