- Auglýsing -
- Austurríski handknattleiksmaðurinn Raul Santos hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 33 ára gamall. Santos, sem fæddist í Dóminíska lýðveldinu, skaut ungum fram á sjónarsviðið sem efnilegum vinstri hornamanni. Hann lék í Þýskalandi í níu ár, frá 2013 til 2022 með Gummersbach, THW Kiel og SC DHfK Leipzig. Undanfarin þrjú ár hefur Santos leikið með BT Füchse í Austurríki.
- Stefan Madsen nýr þjálfari franska meistaraliðsins PSG og aðstoðarmaður hans, Henrik Møllgaard, ætla að stokka upp spilin hjá félaginu um leið og þeir taka við þjálfun af Raúl González. Sex nýir leikmenn ganga til liðs við félagið, Abdelrahman Abdou, Karl Konan, Emil Mellegård, Mikkel Løvkvist, Mateo Maras og Sebastian Karlsson.
- Ekki er nóg með það heldur hverfa átta leikmenn á braut frá PSG, Ruben Marchan, Kent Robin Tønnesen, Dani Baijens, Victor Creen, Noa Narcisse, David Balaguer, Léo Platin og Andreas Palicka.
- Franska landsliðskonan Béatrice Edwige hefur verið leyst undan samningi hjá ungverska liðinu FTC (Ferancváros) að lokinni eins árs veru. Ekki hefur verið opinberað hvert Edwige hefur sett stefnuna en talið er sennilegt að hún flytji á ný heim til Frakklands.
- Danski handknattleiksmaðurinn Morten Hempel Jensen sem var samherji Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna, hjá Skanderborg AGF, hefur ákveðið að söðla um og færa sig yfir landamærin til Þýskalands. Jensen hefur samið við nýliða þýsku 1. deildarinnar, GWD Minden.
- Danska línukonan Sofie Bardrum hefur samið við RK Krim Mercator eftir að hafa leikið um nokkurt skeið með Nykøbing Falster í heimalandi sínu. Bardrum er fjórði nýi leikmaðurinn í herbúðum slóvensku meistaranna. Á móti kemur að liðið hefur orðið að sjá á baki stórskyttunnar Önu Gros sem á ný er flutt til Frakklands hvar hún hefur samið við Brest.
- Auglýsing -