- Auglýsing -
- Kórónuveiran hefur sett leikjadagskrá úr skorðum víða í Evrópu síðustu daga og vikur. Viðureign Kadetten Schaffhausen, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, og GC Amicitia Zürich sem fram átti að fara í dag hefur verið frestað fram á miðvikudag. Nokkrir leikmenn GC Amicitia Zürich veiktust fyrir nokkru og hafa ekki lokið einangrun. Þess vegna var leiknum seinkað um nokkra daga. Annars hefur leikjadagskráin í Sviss ekki raskast eins mikið víða annarstaðar í Evrópu.
- Niklas Ekberg skoraði átta mörk fyrir Kiel þegar liðið vann Nordhorn á heimavelli síðarnefnda liðsins í gærkvöld, 35:29. Harald Reinkind skoraði sex mörk fyrir Kiel-liðið. Robert Weber var markahæstur hjá Nordhorn með sex mörk.
- Steffen Weinhold, leikmaður Kiel, fékk slæma byltu undir lok fyrri hálfleiks og skall með höfuðið í gólfið. Hann vankaðist og var leiddur af leikvelli. Hinn brotlegi leikmaður Nordhorn slapp með skrekkinn og var ekki vísað af leikvelli. Hinsvegar fékk þjálfari Kiel gult spjald fyrir að skammast út í dómarana fyrir það sem honum þótti aðgerðarleysi dómaranna. Weinhold kom ekkert meira við sögu í leiknum.
- Kiel er þar með komið í efsta sæti 1. deildar með átta stig að loknum fimm leikjum. Leipzig, Bergischer og Lemgo eru næst á eftir með sjö stig hver, einnig eftir fimm leiki. Fimmtu umferð deildarinnar lýkur í dag.
- Andreas Thiel, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Þýskalands og núverandi markvarðaþjálfari Bayer Leverkusen sem Hildigunnur Einarsdóttir leikur með var skráður þjálfari liðsins í sigurleiknum á Thüringer á útivelli á föstudagskvöldið, 33:28. Aðalþjálfari Lerverkusen, hinn gamalreyndi Michael Biegler, var og er í sóttkví vegna kórónuveirusmits í fjölskyldunni og aðstoðarþjálfarinn Reante Wolf var fjarri góðu gamni af persónulegum ástæðum.
- Auglýsing -