- Auglýsing -
- Sex leikjum sem fram áttu að fara í þýsku 1. deildinni í handknattleik um helgina hefur verið frestað vegna kórónuveirunnar. Aðeins fjórar viðureignir verða þar af leiðandi á dagskrá. Eins hefur leikjum í 1. deild kvenna verið frestað af sömu ástæðum og örfáum leikjum í 2. deild þar sem ástandið er þó að einhverju leyti skárra.
- Mörg lið fengu tækifæri í landsleikjahléinu til þess að ná vopnum sínum aftur þar á meðal Íslendingaliðinu EHV Aue og Bietigheim sem eigast við í dag í Aue. Meira en mánuður er liðin síðan þau léku síðast. Veiran hefur herjað á þau bæði. Með Aue leika Arnar Birkir Hálfdánsson og Sveinbjörn Pétursson en Aron Rafn Eðvarðsson er markvörður Bietigheim auk þess sem Hannes Jón Jónsson er þjálfari liðsins.
- Í gærkvöld var flautað til leiks í úrvalsdeild karla í Ísrael og leikin var fyrsta umferð. Útgöngubann hefur verið í landinu síðan snemma í haust. Af þeim sökum hefur íþróttalíf legið niðri að mestum hluta.
- Maria Fisker sem ákvað að gefa ekki kost á sér í danska landsliðið fyrir EM í næsta mánuði vegna þess að hún getur ekki hugsað sér að vera vikum saman fjarri rúmlega ársgömlum syni hefur örlítið dregið í land. Hún segist nú vera til í slaginn ef danska landsliðið kemst í milliriðil og þörf verði fyrir sig.
- Auglýsing -