- Auglýsing -
- Sigurður Jefferson Guarino línumaður HK sat allan tímann á varamannabekknum í fyrsta leik bandaríska landsliðsins á þróunarmóti Alþjóða handknattleikssambandsins í Búlgaríu í gær. Bandaríska landsliðið gerði jafntefli við Nígeríu, 31:31, í afar kaflaskiptri viðureign. Bandaríska liðið var sex mörkum yfir í hálfleik, 18:12.
- Næsti leikur Sigurðar og félaga verður gegn landsliði Moldóvu í dag. Moldóvar unnu landslið Aserbaísjan örugglega í gær, 33:21.
- Eitt það áhugaverðasta við þróunarmótið í Búlgaríu er að þrír dómarar dæma hvern leik. Alþjóða handboltasambandið hefur reynt þetta áður, m.a. á heimsmeistaramóti félagsliða en sambandið hefur lengi haft uppi hugmyndir um að fjölga dómurum úr tveimur í þrjá á hverjum leik.
- Víða er margrir landsliðsmenn frá keppni vegna meiðsla. Uroš Zorman þurfti að kalla inn marga lítt reynda menn í slóvenska landsliðið vegna þess að hátt í tugur leikmanna sem tók þátt í HM er úr leik vegna meiðsla. Ofan á annað var Zorman veikur á sunnudaginn þegar landsliðið kom saman til fyrstu æfingar í Ljubljana. Slóvenar sækja Norður Maekdóníumenn heim í kvöld og mæta þeim aftur á laugardaginn í undankeppni EM.
- Þegar hafa selst um 2.000 aðgöngumiðar á fyrsta leik færeyska kvennalandsliðsins á heimavelli í nýju þjóðarhöllinni, Við Tjarnir, sem fram fer 9. apríl. Færeyska landsliðið mætir Litáen í umspili um sæti í lokakeppni HM. Reiknað er með að uppselt verði á leikinn en keppnishöllin rúmar nærri 3.000 áhorfendur. Allir aðgöngumiðarnir á fyrsta heimaleik karlalandsliðsins, gegn Hollendingum í kvöld, seldust upp á skömmum tíma eins og handbolti.is hefur áður sagt frá.