- Auglýsing -
- Sigurjón Guðmundsson varði 10 skot, 30%, þann tíma sem hann stóð í marki Charlottenlund í sigri á Grenland Topphåndballklubb, 36:32, á heimavelli í næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Sem fyrr eru Sigurjón og félagar í 3. sæti deildarinnar. Þeir hafa 24 stig eftir 16 leiki, eru tveimur stigum á eftir Sanderfjord TIF og Viking TIF. Ennþá eru 10 umferðir eftir óleiknar.
- Landsliðskonan Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði átta mörk í öruggum sigri Volda á Trondheim Topphåndball, 37:25, í 18. umferð næstu efstu deildar norska handknattleiksins í gær. Leikið var í Þrándheimi. Volda er í efsta sæti með 33 stig eftir 18 leiki.
- Birta Rún Grétarsdóttir var í leikmannahópi Fjellhammer sem vann Utleira á útivelli, 31:24. Birta Rún skoraði ekki í leiknum. Fjellhammer er í öðru sæti deildarinnar, næst á eftir Dönu Björgu og félögum í Volda.
- Vilborg Pétursdóttir og liðsfélagar í AIK unnu HK Malmö, 29:26, í næst efstu deild sænska handknattleiksins í gær, Allsvenskan. Leikið var í Malmö. Vilborg skoraði ekki að þessu sinni. AIK er í sjötta sæti deildarinnar með 19 stig eftir 16 leiki en sex umferðir eru eftir. AIK endurheimti sæti í deildinni síðasta vor eftir að hafa dvalið í eitt tímabil í deildinni fyrir neðan.
- Hannes Jón Jónsson og liðsmenn hans í Alpla Hard komust í gær í átta liða úrslit austurrísku bikarkeppninnar með stórsigri á St. Pölten, 43:24, á útivelli. Tumi Steinn Rúnarsson var ekki í leikmannhópi Alpla Hard í leiknum.
- Storhamar er áfram í efsta sæti norsku úrvalsdeildar kvenna í handknattleik. Storhamar vann Tertnes á útivelli í gær, 27:24. Axel Stefánsson er í þjálfarateymi Storhamar sem er stigi fyrir ofan Larvik.
- Elías Már Halldórsson og liðskonur hans í Fredrikstad Bkl. töpuðu fyrir Larvik á heimavelli, 33:28. Fredrikstad Bkl er í 11. sæti af 13 liðum sem eftir eru í deildinni eftir að Vipers lagði upp laupana í upphafi ársins.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -