- Auglýsing -
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði átta mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, þegar Kolstad vann Elverum, 30:29, í þriðju viðureign liðanna í úrslitum úrslitakeppni norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Leikurinn fór fram í Þrándheimi. Kolstad er þar með komið með tvo vinninga en Elverum einn.
- Janus Daði Smárason skoraði fimm mörk fyrir Kolstad og gaf átta stoðsendingar. Janus Daði heldur þar með áfram að fara á kostum úrslitakeppninni en hann hefur verið mjög öflugur í allra síðustu leikjum.
- Orri Freyr Þorkelsson, leikmaður Elverum, skoraði ekki marki í leiknum í gær. Fjórða viðureign liðanna fer ekki fram fyrr en 7. júní.
- GOG vann Aalborg, 31:30, í fyrsta úrslitaleiknum um danska meistaratitilinn í Álaborg í gær. Sigurmarkið, eða aðdragandi þess þótti afar vafasamur. Morten Olsen, leikmaður GOG, vann vítakast eftir að hafa tekið alltof mörg skref með boltann. Jerry Tollbring skoraði sigurmarkið úr vítakastinu. Aron Pálmarsson var í leikmannahópi Aalborg en skoraði ekki. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg. Næsti leikur liðanna verður á heimavelli GOG á sunnudaginn.
- Skjern vann Fredericia HK, 34:23, í leiknum um bronsverðlaunin í danska handknattleiknum í karlaflokki í Skjern í gær. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia HK. Næsti leikur fer fram í Fredericia á sunnudaginn.
- Auglýsing -