- Auglýsing -
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk, þar af tvö úr vítaköstum, og Janus Daði Smárason skoraði tvisvar sinnum þegar Kolstad vann Runar, 28:22, í Kolstad Arena í Þrándheimi í gær í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Staðan var jöfn í hálfleik, 11:11. Janus Daði átti 11 stoðsendingar í leiknum. Næsta viðureign liðanna verður í Sandefjord á þriðjudaginn.
- Stjörnuleikur Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna, fyrir PAUC dugði því miður ekki gegn Chambéry á heimavelli í gærkvöld í frönsku 1. deildinni í handknattleik. PAUC tapaði með sex marka mun, 38:32. Donni skoraði 12 mörk og var markahæstur á vellinum. PAUC er í 10. sæti af 16 liðum deildarinnar með 22 stig þegar fjórir leikir eru eftir.
- Grétar Ari Guðjónsson varði sex skot í marki Sélestat þann tíma sem hann fékk að standa á milli stanganna í jafntefli við Istres, 30:30, á útivelli slag neðstu liða frönsku 1. deildarinnar í gærkvöld. Sélestat er neðst með 10 stig þegar 26 af 30 leikjum er lokið. Istres er tveimur stigum fyrir ofan og er t.d. aðeins stigi á eftir Ivry þar sem Darri Aronsson er samningsbundinn. Ivry á leik til góða.
- Daníel Þór Ingason og Oddur Gretarsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Balingen-Weilstetten í heimsókn til Konstanz í gærkvöld í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Balingen-Weilstetten vann leikinn, 35:30, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 20:14. Balingen-Weilstetten er efst í deildinni sem fyrr. Liðið hefur 53 stig að loknum 32 leikjum. Sex umferðir eru eftir. Eisenach er í öðru sæti með 45 stig. Dessauer er stigi og leik á eftir.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði tvö mörk fyrir N-Lübbecke í óvæntu tapi á heimavelli fyrir HC Motor, 29:26. Liðin leika í þýsku 2. deildinni. N-Lübbecke er í fjórða sæti með 44 stig eftir 32 leiki, er stigi á eftir Eisenach sem er í öðru sæti. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari HC Motor sem er í 17. sæti af 20 liðum.
- Alpla Hard, liðið sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, tapaði óvænt fyrir Linz, 29:27, á heimavelli í fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum austurrísku úrvalsdeildinnar í handknattleik karla í gær. Linz var lengst á eftir í leiknum en átti góðan endasprett. Næsti leikur verður í Linz eftir viku.
- Auglýsing -