- Auglýsing -
- Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður og leikmaður Kolstad, er í úrvalsliði norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik sem valið var fyrir febrúar. Þetta er í annað sinn á leiktíðinni sem Sigvaldi Björn er úrvalsliði mánaðarins í deildinni. Hann var einnig með í desemberliðinu. Sigvaldi Björn skorað 24 mörk í leikjum Kolstad í febrúar, 4,97 að jafnaði í leik, átti fimm stoðsendingar og var með 77,42% skotnýtingu.
- Sóley Ívarsdóttir hefur framlengt samning sinn við HK til ársins 2025. Sóley, sem var valin handknattleikskona HK fyrir árið 2022, hefur leikið allan sinn feril með HK og er leikjahæst í sögu félagsins.
- Elvar Ásgeirsson skoraði fimm mörk og átti tvær stoðsendingar þegar Ribe-Esbjerg vann Midtjylland, 28:27, á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Ágúst Elí Björgvinsson varði 9 skot, þar af tvö vítaköst, þann tíma sem hann var í marki Ribe-Esbjergliðsins. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði ekki fyrir Ribe-Esbjerg að þessu sinni. Með sigrinum færðist Ribe-Esbjerg upp í áttunda sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir. TTH Holstebro féll niður í níunda sæti í staðinn.
- Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen komust upp að hlið Füchse Berlin í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í gærkvöld með sigri á Wetzlar, 34:24, á heimavelli. Ýmir Örn skoraði tvö mörk og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
- Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark og Hákon Daði Styrmisson ekkert þegar Gummersbach vann MT Melsungen, 31:23, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Melsungen sem komið er niður í 11. sæti.
- Arnór Þór Gunnarsson var með eitt mark í tveggja marka sigri Bergischer HC á heimavelli, 34:32, á GWD Minden. Sveinn Jóhannsson skoraði ekki fyrir GWD Mindenliðið að þessu sinni. Sveini var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur. Bergischer HC er í 10. sæti en GWD Minden er næst neðst.
- Danski landsliðsmarkvörðurinn Kevin Møller verður frá keppni með Flensburg næstu vikurnar. Hann gekkst undir aðgerð vegna liðþófa í hné í vikunni. Flensburg segir í tilkynningu að vonir standi til þess að Møller mæti á ný í slaginn þegar lið félagsins leikur í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar upp úr miðjum apríl.
- Auglýsing -