- Yngri landsliðin í handknattleik standa í ströngu í dag eins og undanfarna daga. Sautján ára landslið kvenna leikur sinn sjötta leik á Evrópumótinu sem fram fer í Podgorica í dag gegn landsliði Portúgal. Flautað verður til leiks í Verde Complex-íþróttahöllinni klukkan 13.45. Síðasti leikur liðsins verður síðan fyrir hádegið á morgun þegar það mætir annað hvort Sviss eða Norður Makedóníu.
- Klukkan 15.30 í dag hefst síðasta viðureign 19 ára landsliðs karla á heimsmeistaramótinu í Króatíu. Andstæðingurinn í lokaleiknum, sem snýst um 19. sæti mótsins, verður landslið Svartfjallalands.
- Handbolti.is fylgist með báðum leikjum landsliðanna í dag í textalýsingu eins og gert hefur verið svikalaust alla leikdaga íslensku liðanna á mótunum sem hófust í upphafi þessa mánaðar. Einnig verður tengill á streymi frá leik 19 ára landsliðsins aðgengilegur á forsíðu vefsins.
- Grótta og Afturelding mætast í UMSK-mótinu í handknattleik kvenna í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18.30. Um er að ræða fyrsta leik beggja liða á mótinu sem hófst í gærkvöld með sigri Stjörnunnar á HK, 34:30.
- Sænski landsliðsmaðurinn Jesper Nielsen leikur ekki með danska félagsliðinu Aalborg Håndbold í upphafi leiktíðar vegna meiðsla í öxl. Nielsen, sem er að hefja sitt annað tímabil með Álaborgarliðinu, þarf að gangast undir lítilsháttar aðgerð til að fá bót meina sinna.
- Danska landsliðskonan Louise Vinter Burgaard leikur ekki heldur með sínu liði, Metz, á fyrstu vikum nýs tímabils eftir að hafa slasast á fingri á æfingu í vikunni.
- Franski handknattleiksmaðurinn Yoann Gibelin leikur ekki með Frakklandsmeisturum PSG fyrr en á nýju ári. Gibelin slasaðist á hné í síðari æfingaleik PSG í Japan á dögunum þar sem liðið var í æfinga- og keppnisferð.
- Auglýsing -