- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Staðið í ströngu við undirbúning

Janus Daði Smárason leikmaður SC Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk yfir SC Magdeburg í sigri á Nantes, 32:30, á æfingamóti í gær. Viktor Gísli Hallgrímsson lék hluta leiksins í marki Nantes sem mætir Aalborg Håndbold á mótinu í dag. SC Magdeburg leikur þá við Lemgo sem tapaði fyrir Aalborg í gær með fimm marka mun, 31:26. 
  • Ribe-Esbjerg vann í gær þriðja æfingaleikinn á undirbúningstímanum þegar leikmenn SønderjyskE lágu í valnum, lokatölur 28:27. Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Ribe-Esbjerg. Ágúst Elí Björgvinsson stóð í marki liðsins frá upphafi til enda og var með 27% hlutfallsmarkvörslu. 
  • Dagur Gautason heldur áfram að gera það gott með norska liðinu ØIF Arendal. Hann skoraði átta mörk og var markahæstur þegar liðið vann Gdansk frá Póllandi í æfingaleik í gær, 41:30.
  • Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk en Hákon Daði Styrmisson ekkert þegar Gummersbach lagði Skjern í annarri umferð Heidi-Cup æfingamótsins í handknattleik í Þýskalandi í gær, 30:23. Þetta var annar sigur Gummersbach á mótinu. 
  • Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk þegar svissneska meistaraliðið tapaði fyrir sænska meistaraliðinu IFK Kristianstad, 39:30, í annarri umferð Heidi-cup æfingamótsins í Þýskalandi í gær. 
  • Hannover-Burgdorf vann annan leik sinn á Heidi-cup mótinu í gær þegar liðið lagði HSV Hamburg, 39:35. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er með tvo sigra á mótinu.
  • Rhein-Neckar Löwen og HBW Balingen-Weilstetten skildu jöfn í æfingaleik, 28:28. Oddur Gretarsson skoraði sex mörk fyrir Balingen og Daníel Þór Ingason eitt. Arnór Snær Óskarsson skoraði tvisvar fyrir RN-Löwen og Ýmir Örn Gíslason einu sinni. Alls börðu um 500 áhorfendur leikinn augum. 
  • Tumi Steinn Rúnarsson og samherjar hans í Coburg unnu Eulen Ludwigshafen, 33:31, í æfingaleik í fyrradag. Enga tölfræði er að finna sem snýr að leikmönnum Coburg. 
  • Grétar Ari Guðjónsson, markvörður úr Hafnarfirði, og samherjar í Sélestat unnu Sarrebourg Moselle Sud Handball, 34:27, í æfingaleik í fyrradag. Sélestat féll úr efstu deild franska handknattleiksins í vor. Þar á bæ virðast menn staðráðnir í að staldra aðeins við í eitt tímabil í næst efstu deild. 
  • EHV Aue vann Füchse Berlin II, 30:27, í æfingaleik í gær. Sveinbjörn Pétursson varði átta skot í marki Aue-liðsins í fyrri hálfleik. EHV Aue endurheimti sæti sitt í 2. deild í vor og býr liðið sig af kostgæfni undir átök tímabilsins sem hefst innan fárra vikna.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -