- Auglýsing -
- Sunna Guðrún Pétursdóttir markvörður fór á kostum í sigurleik GC Zürich á LC Brühl Handball, 29:24, á útivelli í efstu deild svissneska handknattleiksins í gær. Sunna Guðrún varði 15 skot í marki GC Zürich, 39%. Harpa Rut Jónsdóttir skoraði eitt mark fyrir GC Zürich sem er í 5. sæti deildarinnar með 10 stig eftir 11 leiki. LC Brühl er í öðru sæti.
- Axel Stefánsson er annar þjálfari norska úrvalsdeildarliðsis Storhamar sem vann Aker, 33:24, í 11. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna í gærkvöld. Storhamar er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig eftir 11 leiki, er sex stigum á eftir meisturum Vipers.
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir Volda þegar liðið tapað með 10 marka mun fyrir Byåsen, 33:23, í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Katrín Tinna Jensdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir skoruðu hvorug mark að þessu sinni. Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda sem rekur lestina í deildinni með fjögur stig eftir 11 leiki.
- Lovísa Thompson var ekki í leikmannahópnum hjá Tertnes þegar liðið tapaði fyrir meisturum Vipers Kristiansand, 34:24, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni. Tertnes er í næst neðsta sæti deildarinnar með sex stig.
- Steinunn Hansdóttir skoraði þrjú mörk úr jafnmörgum tilraunum þegar lið hennar, Skanderborg Håndbold, sótti Nykøbing heim í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöldi og tapaði með 11 marka mun, 37:26. Skanderborg Håndbold er næst neðst í deildinni með þrjú stig eftir 13 leiki.
- Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands ákvað að fara til Póllands með 16 leikmenn og skilja þar með tvo liðsmenn, Lukas Zerbe og Tim Zechelm, eftir heima þegar þýska landsliðið fór til Katowice í Póllandi í gær. Axel Kromer talsmaður þýska handknattleikssambandsins sagði að vegna þess hversu stutt væri yfir til Póllands sé ekki talin ástæða til fara með 18 leikmenn af stað. Þjóðverjar mæta Katarbúum í fyrstu umferð E-riðils annað kvöld.
- Auglýsing -