- Auglýsing -
- Sunna Guðrún Pétursdóttir átti stórleik með GC Amicitia Zürich í gær þegar liðið vann HSC Kreuzlingen á útivelli í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Sunna Guðrún varði 13 skot, þar af eitt vítakast, 42%, í fjögurra marka sigri, 31:27. Harpa Rut Jónsdóttir skoraði eitt mark fyrir GC Amicitia Zürich.
- Hafþór Már Vignisson skoraði tvö mörk fyrir ØIF Arendal í gær þegar liðið vann serbneska liðið Vojvodina, 37:33, á heimavelli í síðari umferð 16-liða úrslita Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Sigurinn nægði ØIF Arendal ekki til þess að komast í átta liða úrslit. Vojvodina vann fyrri leikinn í Serbíu fyrir viku með 13 marka mun, 42:29.
- Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk þegar Veszprém vann Dabas KC, 42:31, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Staðan var jöfn í hálfleik, 18:18. Veszprém er efst í deildinni með 30 stig eftir 15 leiki.
- Sveinn Andri Sveinsson skoraði þrjú mörk og gaf sex stoðsendingar þegar lið hans Empor Rostock tapaði á útivelli fyrir Hüttenberg, 28:25, í annarri deild þýska handknattleiksins í gær. Empor Rostock er í næst neðsta sæti deildarinnar með 10 stig eftir 20 leiki.
- Nú mun vera óhætt að fullyrða að Kyndill, undir stjórn Jakobs Lárussonar, leikur til úrslita í færeysku bikarkeppninni í handknattleik kvenna. Kyndill vann Stjørnan, 23:20, í síðari leik liðanna í Þórshöfn í gær. Kyndill hafði einnig betur í fyrri viðureign undanúrslitanna á dögunum. Kyndill mætir H71 í úrslitaleik á laugardaginn eftir viku. H71 tapaði síðari leiknum við Neistan í gær, 29:28, en vann fyrri leikinn með yfirburðum. Tapið í gær var það fyrsta hjá H71 á leiktíðinni í Færeyjum.
- Óðinn Þór Ríkharðsson var að vanda markahæstur hjá Kadetten Schaffhausen í gær þegar liðið vann HSC Kreuzlingen, 34:21, á heimavelli í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten sem er í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir HC Kriens-Luzern sem trónir á toppnum.
- Ólafur Andrés Guðmundsson gat ekki leikið með GC Amicitia Zürich á heimavelli í gær þegar liðið tapaði fyrir TSV St. Otmar St. Gallen, 37:31, í A-deildinni í Sviss. Ólafur Andrés hefur ekki ennþá bitið úr nálinni vegna höggs sem hann fékk á annað lærið á æfingu íslenska landsliðsins meðan á heimsmeistaramótinu í handknattleik stóð í síðasta mánuði. GC Amicitia Zürich er í fjórða sæti.
- Auglýsing -