- Auglýsing -
- Línumaðurinn Svala Júlía Gunnarsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Fram. Svala Júlía hefur verið burðarás í Fram U liðinu í Grill66-deild kvenna undanfarin ár og hefur hlutverk hennar stækkað á yfirstandandi keppnistímabili.
- Elín Freyja Eggertsdóttir tók í vikunni við formennsku í handknattleiksdeild ÍR á aðalfundi deildarinnar. Elín Freyja tók við af Matthíasi Imsland sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. „Tæplega 10 milljóna kr hagnaður var á rekstri deildarinnar á síðasta starfsári auk þess sem deildin er nánast skuldlaus. Mikil aukning iðkenda hefur verið hjá félaginu og hefur iðkendum fjölgað 4 annir í röð. Hefur náðst sérstaklega góður árangur að fjölga iðkendum í yngstu flokkum kvenna,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍR. Handbolti.is sagði á dögunum frá ánægjulegum viðsnúningi í rekstri handknattleiksdeildar ÍR.
- Grétar Ari Guðjónsson varði 11 skot, þar af þrjú vítaköst, þegar lið hans Nice gerði jafntefli við Cherbourg, 30:30, á útivelli í frönsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Nice er í fimmta sæti deildarinnar með 27 stig þegar sjö umferðir eru eftir. Grétar Ari stóð allan leikinn í marki Nice. Hlutfallsmarkvarsla hans var 27,5%.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar fyrir lið sitt, Coburg, þegar það tapaði naumlega í hörkuleik við Hamm-Westfalen í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Leikið var á heimavelli Hamm-Westfalen-liðsins. Coburg, sem er í 14. sæti af 20 liðum deildarinnar, var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:14.
- Vegna veikinda í herbúðum þýska 1. deildarliðsins Metzingen hefur leik liðsins við BSV Sachsen Zwickau sem Díana Dögg Magnúsdóttir leikur með verið frestað. Til stóð að leikurinn færi fram í dag. Um er að ræða annan helgarleikinn í röð hjá Sachsen Zwickau sem er frestað vegna kórónuveiru í herbúðum andstæðinganna. Fyrir veikindi hjá Metzingen voru leikmenn Leverkusen veikir.
- Sanda Erlingsdóttir gengur til liðs við Metzingen í sumar. Sandra kveður EH Aalborg í Danmörku í dag þegar liðið leikur síðasta leik sinn í dönsku 1. deildinni gegn AGF í Álaborg.
- Felix Már Kjartansson skoraði níu mörk og Ágúst Ingi Óskarsson sex þegar Neistin tapaði fyrir Kyndli, 30:28, í umspili liðanna í neðri hluta færeysku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Leikið var í Høllinni á Hálsi í Þórshöfn.
- Bjartur Már Guðmundsson skoraði eitt af mörkum StÍF í sigri á H71-2, 36:19, einnig í keppni neðri liðanna í færeysku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Viðureignin fór fram í Høllinni á Skála.
- Auglýsing -