- Auglýsing -
- Handknattleiksdómararnir Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma viðureign hollenska liðsins KRAS/Volendam og Wacker Thun frá Sviss í 2. umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik sem fram fer í Volendam í Hollandi í kvöld.
- Ólafur Haraldsson verður eftirlitsmaður í Helsinki á morgun þegar IFK Handball Helsinki og KH Besa Famgas frá Kósovó mætast í annarri umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik.
- Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði þrjú mörk í sínum fyrsta leik með Alpla Hard í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Hard vann HSG XeNTiS Bärnbach/Köflach 35:19 á heimavelli og situr áfram í efsta sæti deildarinnar. Liðið hefur 15 stig eftir átta leiki. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard.
- Kristján Örn Kristjánsson skoraði sex mörk þegar PAUC vann Créteil, 32:27, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Leikurinn fór fram á heimavelli Créteil. PAUC er í fjórða sæti deildarinnar með 10 stig eftir sjö leiki. Nantes er efst með 12 stig eftir sex leiki.
- Sveinn Jóhannsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar lið hans Skjern vann Skanderborg Aarhus, 30:28, á útivelli í níundu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Skjern er þar með komið upp í fjórða sæti deildarinnar.
- Holstebro, liðið sem Halldór Jóhann Sigfússon vinnur hjá, vann SønderjyskE, 34:31, á heimavelli í gær og er komið upp í 5. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Allt annað er að sjá til Holstebroliðsins það sem af er leiktíðar samanborið við síðasta tímabil þegar flest gekk á afturlöppunum og liðið rétt slapp við fall úr deildinni eftir umspilsleiki.
- Ásgeir Snær Vignisson skoraði þrjú mörk fyrir Helsingborg þegar liðið tapaði fyrir Svíþjóðarmeisturum Ystads IF HF, 28:21, í Ystad í gærkvöld. Nýliðar Helsingborg eru í áttunda sæti með sjö stig að loknum átta leikjum. Ystad er komið upp í fimmta sæti eftir erfiða byrjun.
- Handknattleiksmaðurinn Aron Gauti Óskarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við HK. Hann er uppalinn HK-ingur en hefur undanfarin ár leikið með Fram. Meiðsli hafa sett talsvert strik í reikninginn hjá Aroni Gauta síðustu árin.
- Auglýsing -