- Auglýsing -
- GWD Minden tapaði á heimavelli fyrir Dessau-Roßlauer HV 06, 41:39, í gær en liðin leika í 2. deild þýska handknattleiksins. Sveinn Jóhannsson skoraði sex mörk fyrir Minden og var í tvígang vikið af leikvelli. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli en hann er leikmaður Minden eins og Sveinn. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Minden-liðsins sem situr í 11. sæti með 9 stig.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði ekki mark en var einu sinni vikið af leikvelli þegar lið hans, VfL Lübeck-Schwartau, tapaði í heimsókn til Nordhorn, 33:29, í þýsku 2. deildinni í gær. VfL Lübeck-Schwartau er í 10. sæti.
- Hákon Daði Styrmisson og samherjar hans í Eintracht Hagen unnu óvæntan og stóran sigur á ASV Hamm, 41:26, í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gær. Hamm var í efsta sæti deildarinnar fyrir leikinn og aðeins tapað einum af níu leikjum. Hagen var hinsvegar í neðri hluta deildarinnar. Hákon Daði skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu í leiknum. Hagen er komið upp í áttunda sæti eftir sigurinn með 10 stig úr 10 leikjum.
- Stöðuna í þýsku 2. deildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Halldór Jóhann Sigfússon og leikmenn hans í danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland töpuðu í gær fyrir efsta liði deildarinnar, Aalborg Håndbold, 33:27, á heimavelli í síðasta leik 11. umferðar. Nordsjælland er í 11. sæti deildarinnar með átta stig. Aalborg er með 22 stig, hefur ekki tapað stigi til þessa.
- Tryggvi Þórisson og samherjar í IK Sävehof unnu Lugi, 39:32, á heimavelli í gær í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Tryggvi skoraði ekki mark en kom nokkuð við sögu í varnarleiknum. Samherji hans, Óli Mittún, skoraði 12 mörk í 13 skotum. Óli er væntanlegur með færeyska landsliðinu hingað til lands í lok vikunnar til tveggja landsleikja. IK Sävehof er efst í deildinni með 12 stig eftir átta leiki.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði sex mörk fyrir Amo HK í jafntefli við Alingsås, 35:35, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Amo HK er í sjötta sæti með níu stig eftir átta leiki. Arnar Birkir var valinn besti leikmaður Amo HK í leiknum.
- Stöðuna í sænsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Bjarki Finnbogason og samherjar í Ask 72 handboll (Anderstorps) unnu Varberg, 29:27, í næst efstu deild sænska handknattleiksins, Allsvenskan, í gær á heimavelli. Ask 72 handboll (Anderstorps) er í fimmta sæti deildarinnar með 10 stig að loknum átta leikjum.
- Axel Stefánsson fagnaði sigri með Storhamar í norsku úrvalsdeild kvenna í gær en Axel er annar þjálfara liðsins. Storhamar lagði Gjerpen, 30:17, á útivelli. Storhamar er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig.
- Eftir tap fyrir Larvik í bikarkeppninni í Noregi á dögunum þá sóttu leikmenn Fredrikstad Bkl. hefndir þegar liðin mættust í Larvik í gær í úrvalsdeildinni. Fredrikstad Bkl., sem Elías Már Halldórsson þjálfar, vann leikinn í gær, 38:32, og er þar með áfram í þriðja sæti með 14 stig eftir níu leiki.
- Volda steinlá í 1. deild kvenna í Noregi í gær þegar liðið sótti Haslum heim, 28:15. Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði tvö af mörkunum 15 sem leikmenn Volda skoruðu að þessu sinni. Haslum settist þar með í efsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir sjö leiki. Volda er í öðru sæti og hefur einnig 12 stig en hefur lokið átta viðureignum.
- Auglýsing -