- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Syprzak, Mem, Ortegea, Richardson, Gísli, Aron, Hansen, Alfreð

Kamil Syprzak varð markahæstur í Meistaradeildinni á leiktíðinni þótt lið hans heltist úr lestinni í átta liða úrslitum. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -
  • Kamil Syprzak varð markahæsti leikmaður Meistaradeildar karla í handknattleik sem lauk í gær með naumum sigri Barcelona á Aalborg Håndbold. Syprzak, sem leikur með PSG í Frakklandi, en liðið heltist úr lestinni í átta liða úrslitum eftir tap Barcelona, skoraði 112 mörk. Hann er fyrsti Pólverjinn til að skora flest mörk í Meistaradeildinni á einu keppnistímabili.
  • Næstur á eftir Syprzak var Frakkinn Dika Mem ein helsta stjarna Barcelona. Hann skoraði 106 mörk, þar af 10 í leikjunum tveimur um helgina.
  • Carlos Ortega stýrði Barcelona til sigurs í Meistaradeildinni í annað sinn síðan hann byrjaði sem þjálfari liðsins sumarið 2021 þegar Xavier Pascual kvaddi stól þjálfara eftir langan og sigursælan feril. Ortega vann Meistaradeildina sex sinnum sem leikmaður Barcelona.
  • Melvyn Richardson leikmaður Barcelona og franska landsliðsins var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar. Richardson er 27 ára gamall og hefur verið sterklega orðaður við pólska meistaraliðið Wisla Plock frá og með næsta sumri.
  • Melvyn sleit barnsskónum á handknattleiksvellinum hjá Chambéry en gekk til liðs við Montpellier 20 ára gamall og lék með liðinu í fjögur ár uns hann samdi við Barcelona frá og með sumrinu 2021. Hann hefur eðlilega staðið í skugga Dika Mem hjá Katalóníuliðinu og talsvert þurft að leika á miðjunni þótt hann kunni best við sig í skyttustöðunni hægra megin.
  • Margir muna e.t.v. eftir föður Melvyn, Jackson Richardson, sem einn litríkasta og fremsta handknattleiksmann sinnar samtíðar og gerði garðinn frægan utan vallar sem innan þegar HM í handknattleik karla fór fram hér á landi 1995.
  • Gísli Þorgeir Kristjánsson hreppti nafnbótin mikilvægasti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar fyrir ári síðar.
  • Aron Pálmarsson var valinn 2014 sem leikmaður Kiel og aftur tveimur árum síðar þegar hann var kominn í raðir Veszprém í Ungverjalandi. Í bæði skipti var Aron í liði sem varð í öðru sæti. Aron er sá eini sem valinn hefur verið tvisvar mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar síðan hún var sett á laggirnar 2010.
  • Mikkel Hansen sem missti af áttunda og síðasta tækifærinu á ferlinum í gær að vera í sigurliði Meistaradeildar Evrópu er í 20 manna æfingahópi sem Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari valdi í morgun. Af þeim fara 14 með á leikana og þrír verða til vara. Skorið verður niður í hópnum síðar í þessum mánuði eftir æfingatörn.
  • Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla valdi í morgun 17 leikmenn til æfinga fyrir Ólympíuleikana. Það er sá hópur sem Alfreð mun að forfallalausu taka með á leikana, þ.e. 14 leikmenn og þrír varamenn.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -