- Auglýsing -
- Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk í sex skotum og átti fimm stoðsendingar þegar IFK Kristianstad tapaði í heimsókn sinni til Ystads IF, 30:28, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristiandstad, skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar og þrjú markskot. Ystads IF var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfeik, 17:14. Ystads er í efsta sæti deildarinnar með 23 stig eftir 15 leiki en Kristianstad situr í fimmta sæti með 16 stig að loknum 13 leikjum. Nóg er að gera hjá Kristianstad-liðinu um þessar mundir. Það mætir Presov í Evrópudeildinni annað kvöld í Slóvakíu.
- Serbneska handknattleikskonan Andrea Lekić sem varð fyrir því óláni að slíta hásin í viðureign Serba og Hollendinga á laugardagskvöldið gekkst undir aðgerð í Danmörku í gær þar sem hásinin var saumuð. Reiknað er með að hún fari heim til Belgrad í dag. Eftir aðgerðina í gær birti Lekić myndina hér að neðan á samfélagsmiðlum.
- Fjaðrafok var í gær þegar sjónvarpsmyndir TV2 í Danmörku sýndu Ambros Martín þjálfari rússneska landsliðsins á EM kvenna gefa Denis Bogomolov, framkvæmdastjóra rússneska handknattleikssambandsins fimmu og takast í hendur eftir sigur Rússa á Tékkum á laugardaginn. Það er brot á sóttvarnareglum mótsins þar sem Martín og Bogomolov er ekki innan sama mengis eða búbblu á mótinu. Bogomolov var neðst í áhorfendastúkunni þegar Martín gekk framhjá honum og byrjaði reyndar á að koma upp í stúkuna. Eftir að honum var bent á að fara niður á keppnisgólf á ný gerði hann það en talaði þar við Bogomolov um stund áður en þeir slógu lófum saman og tókust síðan í hendur áður en Martín hvarf á braut.
- Vilja sumir ganga svo langt að Martín verði vísað úr keppni vegna atviksins. Ekkert hefur heyrst frá Handknattleikssambandi Evrópu vegna atviksins. Reikna má með að þar á bæ verði blinda auganu beint að þessu atviki. Þá þykir Bogomolov hafa bitið höfuðið af skömminni með því að hafa ekki verið með grímu þegar hann talaði við Martín. Martín hafði sett upp grímu þegar samtalið átti sér stað enda á leið út úr íþróttahöllinni.
- Auglýsing -