- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Tap og sigur, smitaður þjálfari og gremja

Óskar Ólafsson leikmaður Drammen í Noregi. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Viktor Petersen Norberg skoraði sjö mörk fyrir Drammen og nýbakaður landsliðsmaður Óskar Ólafsson aðeins eitt þegar Drammen-liðið tapaði fyrir Kolstad, 27:21, á heimavelli Kolstad í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Leikmenn Kolstad voru með tögl og hagldir frá upphafi til enda leiksins og unnu á sanngjarnan hátt. Drammen-liðið er þar með þremur stigum á eftir Elverum og ÖIF Arendal sem eru í tveimur efstu sætum deildarinnar með 16 stig hvort. Elverum eftir níu leiki en Arendal tíu.


Kadetten Schaffhausen, liðið sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar í Sviss, trónir áfram á toppi deildarinnar. Kadetten vann Amicitia Zürich, 35:25, í Zürich í leik sem átti að fara fram á sunnudaginn en var seinkað meðan þess var beðið að leikmenn Amicitia Zürich losnuðu úr eingangrun og sóttkví. Kadetten er með 16 stig eftir 10 leiki í efsta sæti. HC Kriens er stutt á eftir með 15 stig og Syh Aarau er með 13 stig í þriðja sæti. Pfadi Winterthur er í fjórða sæti með 12 stig en aðeins lokið átta leikjum, tveimur leikjum færra en liðin fyrir ofan.


Andre Haber, þjálfari þýska handknattleiksliðsins Leipzig, greindist smitaður af kórónuveiru í gær og verður þar af leiðandi ekki á hliðarlínunni í kvöld þegar Leipzig sækir Stuttgart heim. Með Stuttgart leika Íslendingarnir Elvar Ásgeirsson og Viggó Kristjánsson. Sá síðarnefndi lék nokkra leiki undir stjórn Haber í upphafi síðasta tímabils hjá Leipzig.


Gremja ríkir á meðal forráðamanna liðanna í þýsku 1. deild karla vegna þess að þeim hefur verið bannað að selja áhorfendum aðgang að leikjum í nóvember. Til stendur að leikið verði fyrir tómum íþróttahöllum í mánuðinum en það er ein þeirra ráðstafana sem gripið verður til í þeim tilgangi að bæla niður kórónuveiruna sem leikur lausum hala sem aldrei fyrr um gervallt Þýskaland um þessar mundir, ekki síst í vesturhlutanum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -