- Auglýsing -
- Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk og átti tvær stoðsendingar þegar Flensburg tapaði með þriggja marka mun fyrir Barcelona í síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Barcelona í gær. Flensburg er þar með úr leik í keppninni en Barcelona heldur áfram í undanúrslit ásamt Vive Kielce, Veszprém og Kiel. Kiel vann PSG með eins marks mun í mögnuðum leik í Þýskalandi í gær, 33:32. Liðin skildu jöfn í París í síðustu viku, 30:30. Úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer fram í Köln 18. og 19. júní.
- Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark í gærkvöld þegar lið hans Nancy tapaði á útivelli fyrir Saran, 30:26, í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Öll sund eru að lokast fyrir Nancy-liðið í von þess að halda sæti sínu í deildinni. Nancy rekur lestina sem fyrr með sjö stig þegar fjórir leikir eru eftir. Istres er fjórum stigum fyrir ofan í næst neðsta sæti en tvö lið falla úr deildinni.
- Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði tvö mörk, annað úr vítakasti, þegar lið hennar Gjerpen HK Skien tapaði fyrir Tertnes, 25:19, í fyrri viðureign liðanna í umspili um sæti í norsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili. Leikið var í Åsane Arena, heimavelli Tertnes skammt við Björgvin.
- Norska landsliðskonan Camilla Herrem fer í aðgerð vegna meiðsla í hásin 25. maí. Hún segir samtali við TV2 í Noregi að svo kunni að fara hún verði ekki kominn á fulla ferð þegar Evrópumótið fer fram í nóvember. Herrem segist hinsvegar vera staðráðin í koma til baka og að sig langi til þess að vera með á HM 2023 og á Ólympíuleikunum í Frakklandi árið eftir.
- Önnur norsk handknattleiksstjarna, Heidi Løke, hefur óskað eftir að verða leyst undan samningi á Vipers Kristiansand. Hún á ár eftir af samningnum og hefur lítið leikið með liðinu á keppnistímabilinu. Løke er 39 ára gömul. Hún þvertekur fyrir að ætla sér að hætta að leika handknattleik þótt hún hafi óskað eftir að verða leyst undan samningi hjá Evrópumeisturunum. Løke er flutt til Sandefjord. Sú staðreynd er talin vera ástæða þess að hún vill róa á önnur mið áður en endir verður bundinn á einstaklega sigursælan keppnisferil.
- Auglýsing -