- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Þórir í nýju hlutverki á Selfossi, Grímur með ÍBV, Bjarki, Aron, de Vargas

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsiðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Þórir Hergeirsson þjálfari margfaldra heims-, Evrópu-, og Ólympíumeistara Noregs í handknattleik kvenna var í nýju hlutverki á Ragnarsmótinu í handknattleik karla í gær þegar hann lýsti viðureign Selfoss og ÍBV í útsendingu Selfosstv. Þórir sagði í léttum dúr við handbolta.is að hann hafi ekki getað skorast undan þegar þeir sem stýra málum hjá Selfosstv hafi beðið sig um að hlaupa undir bagga. Sagði Þórir jafnframt að þetta væri í fyrsta skipti sem hann tæki að sér þetta hlutverk og sennilega einnig í síðasta skipti. 
  • Þórir hefur verið heima á Íslandi í fríi síðustu vikuna ásamt syni sínum eftir annasamt sumar sem fór í undirbúning og síðar þátttöku norska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Tókýó. Þórir verður hér á landi í um viku til viðbótar. Hann sagði kærkomið að kúpla sig aðeins út eftir miklar annir og skipta um umhverfi. Þórir mun hafa nóg að gera næstu mánuði því norska kvennalandsliðið tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni í desember. 
  • Bróðir Þóris, Grímur, var einnig í nýju hlutverki á Ragnarsmótinu. Hann er aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍBV. Grímur var á sínum tíma í sama hlutverki hjá Selfossi þegar liðið varð Íslandsmeistari 2019 undir stjórn Patreks Jóhannessonar. Tímabilið á eftir var Grímur aðalþjálfari Selfoss-liðsins.  Grímur var ráðinn lögreglustjóri í Vestmannaeyjum undir lok síðasta árs. Hann sagðist spenntur fyrir að vinna í vetur með Erlingi Richardssyni þjálfara ÍBV og leikmönnum liðsins og hlakka til tímabilsins. Grímur kemur í stað Kristins Guðmundssonar sem unnið hefur með Erlingi síðustu ár en tók við þjálfun EB í Færeyjum í sumar.
  • Bjarki Már Elísson lék ekki með bikarmeisturumm Lemgo í gær þegar liðið vann Essen, 39:37, í æfingaleik í Þýskalandi. Hann skoraði hinsvegar sjö mörk er Lemgo lagði Dormagen í æfingaleik á miðvikudaginn, 27:24.
  • Danska meistaraliðið Aalborg vann stóran sigur á sænska úrvalsdeildarliðini Sävehof, 37:25, í æfingaleik í fyrrdag. Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk í leiknum. 
  • Markvörðurinn Gonzalo Perez de Vargas tekur við fyrirliðastöðunni hjá Evrópumeisturum Barcelona af Raúl Enterrios sem hætti keppni eftir Ólympíuleikana í Japan á dögunum.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -