- Auglýsing -
- Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði þrjú mörk og var einu sinni vikið af leikvelli þegar lið hans, FC Porto, vann Avanca, 47:32, í síðari leik liðanna í undanúrslitum portúgölsku bikarkeppninnar í gær. Porto vann samanlagt, 84:53, en leikið er heima og að heiman í undanúrslitum bikarkeppninnar í Portúgal.
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði níu mörk í sigri Sporting Lissabon í hinni viðureign undanúrslita portúgölsku bikarkeppninnar í gær, 40:32. Samanlagt vann Sporting með 17 marka mun, 78:61.
- Sporting og FC Porto mætast í úrslitaleik portúgölsku bikarkeppninnar 7. júní.
- Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk þegar One Veszprém vann Carbonex-Komló, 37:26, á útivelli í næst síðustu umferð ungversku 1. deildarinnar í handknattleik. Bjarki Már Elísson var ekki í leikmannahópi One Veszprém í leiknum. One Veszprém hefur fyrir löngu tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Enn eitt árið mætir liðið Pick Szeged í úrslitum um ungverska meistaratitilinn, eða í 23. sinn í röð.
- Janus Daði Smárason og liðsfélagar í Pick Szeged unnu einnig öruggan sigur. Þeir lögðu FTC (Ferencváros), 40:32, á útivelli. Janus Daði skoraði þrjú mörk.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar í tveggja marka sigri Skanderborg AGF á Mors-Thy, 31:29, á útivelli í næst síðustu umferð riðils eitt í úrslitakeppni átta efstu liða dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Skanderborg AGF og Mors-Thy reka lestina í riðlinum og komast ekki í undanúrslit.
- Aalborg Håndbold, Skjern, GOG og TTH Holstebro eru komin í undanúrslit um danska meistaratitilinn þótt ein umferð sé eftir í báðum riðlum.
- Auglýsing -