- Auglýsing -
- Tryggvi Þórisson skoraði ekki fyrir IK Sävehof þegar liðið vann Hammarby, 27:25, á heimavell í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. IK Sävehof er í sjötta sæti með sex stig eftir fimm leiki, á inni leik við Gautaborgarliðið Önnereds sem einnig hefur aflað sér sex stiga í deildinni fram til þessa.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði þrjú mörk í 10 skotum og átti þrjár stoðsendingar þegar lið hans IFK Skövde tapaði fyrir IFK Kristianstad í uppgjöri tveggja efstu liðanna í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Leikurinn fór fram í Kristianstad og vann heimaliðið örugglega, 29:22. Kristianstad er þar með áfram efst með fullu húsi stiga, 12, að loknum sex umferðum. Skövde situr í öðru sæti, þremur stigum á eftir.
- Gustaf Banke markvörður IFK Kristianstad fór á kostum í leiknum og Markus Olsson samherji hans skoraði sitt 1.000. mark í sænsku úrvalsdeildinni.
- Ásgeir Snær Vignisson skoraði eitt mark fyrir Helsingborg HK þegar liðið vann HK Malmö, 26:23, í Baltiska hallen í Malmö í gærkvöld. Nýliðar Helsingborg HK hafa byrjað vel í deildinni og eru nú í fjórða sæti með sjö stig eftir sex leiki.
- Egill Már Hjartarson skoraði sex mörk og Victor Máni Matthíasson fimm mörk þegar lið þeirra StÍF vann Neistan með 11 marka mun, 39:28, í Höllinni á Skála í gærkvöld. StÍF var með yfirburði í leiknum frá upphafi til enda og var með átta marka forskot eftir fyrri hálfleik, 20:12. StÍF er með þrjú stig eftir fjóra leiki. Neistin er með tvö stig. VÍF frá Vestmanna er efst með 10 stig eftir fimm leiki. KÍF frá Kollafirði er í öðru sæti með sex stig en á leik til góða á VÍF.
- Úkraínska meistaraliðið Motor Zaporozhye tapaði í gær fyrir Eisenach á heimavelli í Düsseldorf, 27:21, í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari Motor en Savukynas Gintaras er þjálfari liðsins. Motor er í 19. og næst neðsta sæti með tvö stig eftir sjö leiki. Eisenach er í öðru sæti með 12 stig að loknum sjö leikjum.
- Því er velt upp á RThandball að sænski markvörðurinn Mikael Appelgren sé undir smásjá danska stórliðsins Aalborg Håndbold. Hermt er að Appelgren hafi verið áhorfandi á leik Aalborg og Midtjylland fyrir um 10 dögum. Appelgren er nú um stundir markvörður Rhein-Neckar Löwen en mun vera með lausan samning í lok tímabilsins.
- Aalborg hefur þegar samið við Niklas Landin, danska landsliðsmarkvörðinn, frá og með næsta sumri og ljóst að ef Appelgren bætist í hópinn verður liðið ekki á flæðiskeri statt með markverði. Ekki er annað vitað en Svíinn Fabian Norsten komi til liðs við Álaborgarliðið næsta sumar þegar samningur hans við Gummersbach rennur út.
- Auglýsing -