- Auglýsing -
- Sandra Erlingsdóttir var markahæst þegar lið hennar EH Aalborg vann Vendsyssel með eins marks mun, 31:30, í hnífjöfnum og æsilega spennandi leik í dönsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld á heimavelli. 31:30. Sandra skoraði sjö mörk í leiknum, tvö þeirra úr vítaköstum. Með sigrinum færðist Álaborgarliðið upp í þriðja sæti deildarinnar. Sigurinn var kærkomin afmælisgjöf fyrir þjálfara liðsins sem átti afmæli í gær.
- Sandra hafði tvöfalda ástæðu til að fagna í gærkvöld því faðir hennar, Erlingur Richardsson, leiddi hollenska landsliðið til óvænts sigurs á Ungverjum, 31:28, í upphafsleik sínum á EM eins og sagt er frá hér. Unnusti Söndru, Daníel Þór Ingason, er leikmaður íslenska landsliðsins sem mætir Portúgal á EM í kvöld. Það er semsagt nóg að gera hjá fjölskyldunni á handboltavöllunum þessa dagana.
- Valur staðfesti í gærkvöld fregnir þess efnis að félagið hafi selt Tuma Stein Rúnarsson til þýska 2. deildarliðsins Coburg. Samningur Tuma Steins við Coburg gildir til loka leiktíðarinnar vorið 2024. Áður en Valur staðfesti vistaskipti Tuma Steins höfðu fjölmiðlar greint frá þeim, m.a. handbolti.is eins og sjá má hér.
- Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu sinn fyrsta leik á Evrópumeistaramótinu í handknattleik. Þeir voru í eldlínunni í viðureign Rússa og Litáa sem fram fór í Kosice í Slóvakíu. Rússar unnu með tveggja marka mun, 29:27.
- Kiril Lazarov meiddist á síðustu æfingu landsliðs Norður Makedóníu í fyrradag og gat ekki leikið með liðinu í gær þegar það mætti Slóvenum á Evrópumótinu í gær í Debrechen í Ungverjalandi. Lazarov, sem er einnig landsliðsþjálfari Norður Makedóníu, verður að láta sér nægja að stýra liðinu frá hliðarlínunni á mótinu. Meiðsli hans er talin það alvarleg að ólíklegt er að hann taki þátt í mótinu sem leikmaður.
- Auglýsing -