- Auglýsing -
- UMSK-mót karla í handknattleik heldur áfram í dag þegar HK og Stjarnan mætast í Kórnum í Kópavogi. Flautað verður til leiks klukkan 12.30. HK vann Gróttu fyrir viku og Stjarnan skildi með skiptan hlut í viðureign við Aftureldingu. Síðustu tveir leikir UMSK-mótins fara fram á miðvikudaginn í Kórnum.
- Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma viðureign Serba og Frakka um 13. sætið á EM karla, 18 ára og yngri, í Svartfjallalandi í dag. Sigurliðið í viðureign Frakka og Serba tryggir sér 13. og síðasta farseðilinn á EM 20 ára landsliða sem fram fer eftir tvö ár.
- Í gær dæmdu þeir félagar undanúrslitaleik Svía og Ungverja. Að leiknum í dag loknum hafa þeir dæmt sex leiki á mótinu og verður áhugavert að fylgjast með hvort þeir dæma leiki á morgun þegar keppt verður átta efstu sætin.
- Íslenska landsliðið mætir færeyska landsliðinu á EM 18 ára landsliða í dag. Viðureignin hefst klukkan 15.30 og verður textalýsing frá viðureign frændþjóðanna á handbolti.is.
- Hollenski handknattleiksmaðurinn Kay Smits yfirgefur þýska meistaraliðið Magdeburg á næsta sumri. Óstaðfestar fregnir herma að hann gangi til liðs við Flensburg. Smits hefur staðið í skugganum af Ómari Inga Magnússyni hjá Magdeburg síðustu tvö ár
- Ennfremur mun Flensburg vera búið að tryggja sér krafta danska landsliðsmannsins Niclas Kirkeløkke frá og með sumrinu 2024. Kirkeløkke hefur leikið með Rhein-Neckar Löwen frá árinu 2019. Ekki er ráð nema í tíma sér tekið.
- Óðinn Þór Ríkharðsson, markakóngur Olísdeildar karla á síðasta keppnistímabili, skoraði 12 mörk, þar af fjögur úr vítaköstum, fyrir svissneska meistaraliðið Kadetten þegar liðið tapaði með eins marks mun fyrir Leipzig á æfingamóti (Heide-cup), 28:27. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten. Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Leizpig en hann gekk til liðs við félagið í sumar frá Stuttgart.
- Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk þegar Aalborg vann ÖIF Arendal í æfingaleik á heimavelli Arendal í Noregi í gær. Leikurinn er hluti af móti sem dönsk og norsk félagslið taka þátt í þessa dagana.
- Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen þegar liðið vann Gummersbach með eins marks mun í æfingaleik á móti (Sparkessen cup) í Þýskalandi í gær, 35:34. Elvar Örn Jónsson lék ekki með Melsungen. Hann er fjarverandi vegna meiðsla sem hann varð fyrir á öxl í viðureign Íslands og Austurríkis í vor.
- Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú af mörkum Gummersbach. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari liðsins. Hákon Daði Styrmisson var ekki með Gummersbach. Eins og Elvar Örn er Hákon Daði frá keppni vegna meiðsla.
- Auglýsing -