- Auglýsing -
- Uppselt er á báða vináttulandsleiki Þýskalands og Íslands í handknattleik karla sem fram fara í Bremen og Hannover á morgun og á sunnudaginn. Alls seldust 8.872 miðar á leikinn í Bremen og 10.043 á viðureignina í Hannover.
- „Eftir allt það sem á undan er gengið síðustu tvö árin þá áttum við sannarlega ekki von á þessum mikla áhuga almennings fyrir að mæta á leikina,“ sagði Mark Schober hjá þýska handknattleikssambandinu í gær. Leikurinn á morgun hefst klukkan 15.15 og á sunnudaginn klukkan 14.30. Báðir leikir verða sýndir á RÚV.
- Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands mun þá stýra landsliði í fyrsta sinn gegn íslenska landsliðinu sem hann lék með um langt árabil og þjálfaði síðar frá 2006 til 2008, m.a. á HM í Þýskalandi 2007.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður og leikmaður Kolstad er í liði desember í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
- Sigtryggur Daði Rúnarsson hefur lokið nokkurra vikna vist sinni hjá austurríska félagsliðinu Alpla Hard og er orðinn gjaldgengur á nýjan leik með ÍBV.
- Kostadin Petrov línumaður Þórs á Akureyri verður í landsliðshóp Norður Makedóníu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst í næstu viku. Frá þessu er greint á heimasíðu Þórs í gær. Áður hefur handbolti.is m.a. sagt frá því að Petrov var valinn í æfinghópinn sem kallaður var saman fyrir jól. Nú hefur verið fækkað í hópnum niður í þann fjölda sem fer til Póllands. Norður Makedónía verður í riðli með Noregi, Hollandi og Argentínu. Leikið verður í Kraká í Póllandi. Fyrsti leikurinn verður á föstudaginn eftir viku.
- Ennfremur segir á heimasíðu Þórs að Petrov hafi verið heiðraður í heimabæ sínum, Veles, þegar landsliðið var þar við æfingar á dögunum.
- Auglýsing -