- Auglýsing -
- Ákveðið hefur verið að taka upp úrslitakeppni á nýjan leik í pólsku úrvalsdeildunum í karla- og kvennaflokki. Úrslitakeppni fór síðast fram 2019 en var felld niður árið eftir þegar allt logaði í covid19. Síðan hefur röð liðanna að lokinni deildarkeppninni ráðið því hvaða lið verður meistari. Niðurstaðan hefur verið sú sama, Kielce vinnur ár eftir ár.
- Pólska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, hafnaði í 17. sæti á heimsmeistaramótinu sem stendur yfir í Þýskalandi og Grikklandi. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að þar með fór pólska liðið heim með forsetabikarinn svokallaða. Eftir riðlakeppni mótsins tók við barátta 16 efstu liðanna um sæti í átta liða úrslitum meðan sextán neðstu liðin kepptu einnig sín á milli. Pólska landsliðið varð efst í þeirri keppni, í 17. sæti, hlaut forsetabikarinn sem keppt hefur verið um á öllum heimsmeistaramótum, jafnt þeirra eldri sem yngri, í nærri tvo áratugi.
- Svíþjóð varð í 12. sæti á HM eftir tap fyrir Egyptum í gær, 37:35. Egyptar hlutu þar með 10. sætið. Spánverjar unnu Frakka og verða að gera sér níunda sætið á góðu eftir að hafa orðið Evrópumeistarar 20 ára landsliða fyrir ári. Frakkar eru í 11. sæti.
- Norska landsliðið náði sér ekki á strik á HM og varð í 18. sæti. Landslið Barein náðu sögulegum árangri þegar það hafnaði í 13. sæti. Barein hefur aldrei áður verið á meðal 16 efstu á HM 21 árs landsliða.
- Marokkó og Chile, sem voru með íslenska landsliðinu í riðli á fyrsta stigi mótsins, lentu í 23. og 29. sæti. Grænlendingar ráku lestina.
- Árangur Serba á HM er sögulegur ekki síður en okkar Íslendinga. Serbar eru að þessu sinni í fyrsta sinni í undanúrslitum á HM 21 árs landsliða. Þeir náðu þriðja sæti á EM 20 ára landsliða fyrir ári. Bundnar eru miklar vonir við að þessi hópur serbneskra handknattleikspilta komi A-landsliðinu í allra fremstu röð á næstu árum.
- Auglýsing -