- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður og félagar hans í franska liðinu Nantes mæta Wisla Plock í síðari leik liðanna í 1. umferð útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Leikurinn fer fram í Frakklandi. Staðan er jöfn, 32:32, eftir fyrri viðureignina sem fram fór í Póllandi á síðasta fimmtudag. Sigurliðið tekur sæti í átta liða úrslitum, tapliðið fellur úr leik.
- Barcelona ætlar að draga úr kostnaði við rekstur handknattleiksliðs síns á næsta keppnistímabil eftir því sem RAC1 í Katalóníu sagði frá í gær. Meðal þess sem sparnaðurinn bitnar á er koma Artsem Karalek til félagsins. Hætt hefur verið við hana auk þess sem Luka Cindric verður að leita á önnur mið, eins og handbolti.is hefur áður sagt frá. Skorið verður niður á fleiri sviðum en alls ætlar félagið að spara um 15 milljónir evra, jafnvirði 2,2 milljarða króna, hjá handknattleiksliðinu, körfuknattleiksliðinu og rúlluskautahokkíliðinu á næst keppnistímabili.
- Fleiri handknattleikslið verða draga saman seglin vegna tapreksturs. Evrópu- og Noregsmeistarar Vipers Kristiansand ætla að draga úr kostnaði eftir nokkurt tap á síðasta almanaksári eftir mörg ár í röð með rekstrarafgangi. M.a. verður fækkað um þrjá leikmenn á launaskrá. Þeir eru nú 23 en verða 20.
- Vonir standa til þess að sænski handknattleiksmaðurinn Jim Gottfridsson geti leikið á nýjan leik með Flensburg um næstu helgi. Gottfridsson hefur verið fjarverandi vegna meiðsla síðan hann meiddist í undanúrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu í lok janúar.
- Auglýsing -