- Auglýsing -
- Rúmeninn Adrian Vasile tekur við sem þjálfari rúmenska meistaraliðsins CSM Búkarest af Helle Thomsen sem hætti hjá félaginu í síðustu viku til þess að einbeita sér alfarið að þjálfun danska kvennalandsliðsins. Vasile þekkir vel til hjá félaginu því hann þjálfaði CSM frá 2019 til 2024 og var samhliða þjálfari rúmenska kvennalandsliðsins 2020 til 2021.
- Norska handknattleikskonan Stine Oftedal Dahmke fæddi dóttur í gær. Eiginmaður Stine er Rune Dahmke leikmaður THW Kiel í Þýskalandi. Þetta er fyrsta barn þeirra hjóna. Oftedal lagði handboltaskóna á hilluna eftir að hafa orðið Ólympíumeistari fyrir tæpu ári síðan. Hún vann níu gullverðlaun með norska landsliðinu.
- Ihor Kopyshynskyi og félagar í úkraínska landsliðinu hefja keppni í dag á Evrópumótinu í strandhandbolta í Alanya í Tyrklandi. Ekki verður ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu umferð. Andstæðingur Ihors og félaga verða Evrópumeistarar Ungverjalands.
- Slóveninn Sebastian Skube hefur skrifað undir eins árs samning við franska liðið Chartres. Skube er 38 ára gamall. Hann hefur síðustu fjögur ár leikið með Chambéry. Þar áður var kappinn í átta ár hjá Bjerringbro/Silkeborg í Danmörku.
- Hjá Chartres kemur Skube í stað Sergey Kudinov sem ákvað að fara frá félaginu eftir 11 ár.
- Bróðir Sebastians, Stas, er fluttur heim til Slóveníu til að leika með meistaraliðinu RD Slovan.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -