- Rússneski handknattleiksmaðurinn Mikhail Vasilyev er látinn 64 ára gamall. Vasilyev var í sigurliði Sovétríkjanna á HM 1982 og á Ólympíuleikunum í Seúl sex árum síðar. Einnig átti hann sæti í sovéska liðinu sem vann handknattleikskeppni karla á Friðarleikunum 1986.
- Vasilyev sem var örvhent skytta lék lengst af með CSKA Moskvu og varð sovéskur meistari 1982, 1983 og 1987. Hann varð Evrópumeistari með CSKA 1988 en árið áður vann liðið Evrópukeppni bikarhafa. Fyrir og eftir aldamótin var Vasilyev þjálfari hjá félögum í neðri deildum þýska handknattleiksins.
- Haukur Þrastarson og liðsmenn Dinamo Búkarest unnu næst neðsta lið rúmensku úrvalsdeildarinnar í handknattleik, CSM Odorheiu Secuiesc, 32:28, á heimavelli í morgun. Dinamo er efst í deildinni með 55 stig eftir 19 leiki en gefin eru þrjú stig fyrir sigur í deildinni. Dinamo hefur unnið 18 leiki en gert eitt jafntefli og ekki tapað leik. Minaur Baia Mare er næst með 44 stig. Þar á eftir eru Íslandsvinirnir í Potaissa Turda með 43 stig en Turdamenn eiga tvo leiki inni á Dinamo og Baia Mare.
- Danski landsliðsmarkvörðurinn Emil Nielsen hefur dregið sig út úr landsliðinu sem á leiki í vikunni. Nielsen hefur glímt við meiðsli síðustu vikur þrátt fyrir að hafa staðið vaktina hjá Barcelona. Nú er kominn tími til að Nielsen kasti mæðinni í nokkra daga. Danska landsliðið er ekki á flæðiskeri statt með markverði Kevin Möller og Jannick Green eru tilbúnir til þess að hlaupa í skarðið fyrir Nielsen.
- Jan Kampman, sem tók við formennsku í danska handknattleikssambandinu í lok nóvember þegar Morten Stig Christiansen varð bráðkvaddur, verður ekki í kjöri á næsta þingi sambandsins þegar eftirmaður Christiansen verður kjörinn. Kapmann mun ekki ekki njóta óskoraðs trausts innan stjórnar og sækist þar með ekki eftir formennsku né sæti í stjórn.
- Dagur Gautason skoraði sex mörk, þar af eitt úr vítakasti, í 10 marka sigri Montpellier á Limoges, 37:27, í frönsku 1. deildinni í handknattleik á föstudagskvöld. Dagur lék í rúmlega í rúmlega 43 mínútur í leiknum sem fram fór í Palais des sports de Beaublanc í Limoges. Montpellier er í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig eftir 19 leiki. PSG og Nantes sitja í tveimur efstu sætunum.
- Auglýsing -