- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Viggó, Ýmir Örn, Viktor, Óskar, Einar, Guðmundur, Halldór, West av Teigum

Viggó Kristjánsson leikmaður Leipzig og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Stórleikur Viggós Kristjánssonar fyrir Leipzig dugði liðinu skammt gegn Ými Erni Gíslasyni og samherjum í Rhein-Neckar Löwen í viðureign liðanna í 32-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í Leipzig í gærkvöld.
  • Löwen vann með níu marka mun, 36:27.  Viggó skoraði átta mörk, þar af tvö úr vítaköstum og átti einnig fimm stoðsendingar. Til viðbótar gekk Viggó vasklega fram í vörninni og var einu sinni vísað af leikvelli. Þetta var fyrsti leikur Leipzigliðsins eftir að André Haber þjálfari var látinn taka pokann sinn í byrjun vikunnar.
  • Ýmir Örn skoraði ekki mark í leiknum en lék að vanda í miðri vörn Löwen. Hann átti þó eitt markskot sem missti marks og eina stoðsendingu. Enn er ein viðureign eftir í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar í karlaflokki í Þýskalandi. Eulen Ludwigshafen tekur á móti SC Magdeburg 22. nóvember. 
  • Drammen  komst upp í annað sæti norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær með eins marks sigri á Runar Sandefjord, 29:28, í Drammenshallen. Viktor Petersen Norberg skoraði sex mörk fyrir Drammen og átti þrjár stoðsendingar. Óskar Ólafsson skoraði ekki mark en gaf þrjár stoðsendingar og var fastur fyrir í vörninni.  
  • Drammen hefur þar með 10 stig eftir átta leiki í öðru sæti. Runar er í sæti fyrir neðan, einnig með 10 stig en á leik til góða. Kolstad er sem fyrr efst með 14 stig að loknum sjö leikjum.
  • Fredericia Håndboldklub færðist upp í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildinnar í gærkvöld með sigri á Holstebro, 34:32, á heimavelli í upphafsleik 10. umferðar. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia Håndboldklub, gaf eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia Håndboldklub  sem hefur 11 stig eftir leikina tíu. 
  • Halldór Jóhann Sigfússon er aðstoðarþjálfari Holstebro-liðsins sem var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik. Holstebro er í sjöunda sæti með 11 stig eins og Fredericia Håndboldklub
  • Füchse Berlin tilkynnti í gær að félagið hafi samið við færeyska hægri hornamanninn Hákun West av Teigum frá og með næsta sumri.  Færeyingurinn leikur um þessar mundir með Skanderborg-Aarhus. Hann er tvítugur og kemur í stað Danans Hans Lindberg sem hverfur frá Berlínarliðinu að loknu  keppnistímabilinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -