- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson er í úrvalsliði fyrstu umferðar úrslitakeppninnar í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Hann átti stórleik með GOG gegn Ribe Esbjerg í tveggja mark sigri GOG á laugardaginn, 28:26. Viktor Gisli varði 20 skot, 44% markvörslu, og var maðurinn sem reið baggamuninn fyrir deildarmeistarana í jöfnum leik. Viktor Gísli verður í eldlínunni í kvöld þegar GOG sækir Nexe heim í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
- Aron Pálmarsson og félagar í danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold unnu öruggan sigur á Fredericia, 36:26, á heimavelli í öðrum leik liðsins í átta liða úrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar. Aalborg hefur þar með unnið tvo fyrstu leikina í úrslitakeppninni. Aron skoraði ekki mark í leiknum í gær en átti fjórar stoðsendingar. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins. Nikolaj Læsö átti stórleik og skoraði 10 mörk. Einnig fór Mikael Aggerfors á kostum í marki Aalborg með 40% hlutfallsmarkvörslu.
- Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach þegar liðið tapaði með eins marks mun í heimsókn til Dessau-Roßlauer HV, 33:32. Gummersbach er með átta stiga forskot í efsta sæti með 48 stig eftir 30 leiki. Dessau-Roßlauer HV er hinsvegar í 15. sæti.
- Unglingalandsliðsmennirnir Arnór Máni Daðason og Kjartan Þór Júlíusson hafa skrifað undir þriggja ára samning við Fram. Bundnar eru miklar vonir við piltana í framtíðinni, segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Fram. Báðir voru þeir með Olísdeildarliði Fram á keppnistímabilinu.
- Jakob Ingi Stefánsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Jakob er fæddur árið 1997 og leikur í vinstra horni. Jakob kom til Gróttu árið 2019 frá Aftureldingu en hann er uppalinn í Breiðholtinu hjá ÍR.
- Auglýsing -