- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG unnu Nordsjælland, 33:27, í næst síðustu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Leikið var á heimavelli GOG sem hefur fyrir nokkru síðan tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Viktor Gísli var í marki GOG stóran hluta leiksins í gær og varði átta skot, 33%.
- Danmerkurmeistarar Aalborg Håndbold unnu Ribe-Esbjerg á heimavelli, 33:29. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk og átti fimm stoðsendingar fyrir Álaborgarliðið sem er fimm stigum á eftir GOG fyrir lokaumferðina.
- Ýmir Örn Gíslason skoraði þrjú mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen á heimavelli í gærkvöld í jafntefli við Flensburg, 29:29. Teitur Örn Einarsson var ekki í liði Flensburg að þessu sinni. Flensburg er í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig í 25 leikjum, er átta stigum á eftir Magdeburg sem er í efsta sæti. Rhein-Neckar Löwen situr í 10. sæti með 22 stig.
- Elvar Ásgeirsson skoraði fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti þegar lið hans, Nancy, tapaði fyrir Saint-Raphaël, 35:27, á útivelli í gærkvöld í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Nancy rekur lestina í deildinni, hefur fimm stig eftir 22 umferðir af 30.
- Hannes Jón Jónsson var í leikmannahópi Alpla Hard þegar liðið gerði jafntefli á heimavelli við BT Füchse Auto Pichler, 30:30, í austurrísku 1. deildinni í gær. Hannes Jón hefur tekið þátt í þremur síðustu leikjum liðsins vegna veikinda í leikmannahópi Hard-liðsins en hann er þjálfari liðsins. Hard hefur eins stigs forskot í efsta sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir.
- Handknattleiksþjálfarinn Petre Ivănescu er látinn 85 ára gamall eftir baráttu við krabbamein. Ivănescu varð heimsmeistari með rúmenska landsliðinu 1961 og 1964. Síðar snéri hann sér að þjálfun með afbragðsárangri og stýrði m.a. Gummersbach og Tusem Essen. Bæði lið unnu þýska meistaratitilinn undir hans stjórn auk þess sem Gummersbach vann Evrópukeppni meistaraliða undir stjórn Ivănescu. Ivănescu var landsliðsþjálfari Þýskalands 1987 til 1989 og síðar þjálfari rúmenska landsliðsins snemma á öldinni.
- Auglýsing -